„Held ég hafi verið sæmileg í höndunum“

Alla jafna er listsýningum í listamiðstöðum ekki framlengt umfram fyrirfram ákveðinn sýningartíma nemi mikið komi til. Það er einmitt það sem gerst hefur með handverkssýningu á munum Petru Björnsdóttur í Sláturhúsinu á Egilsstöðum.

Til stóð að sú sýning; á fjölmörgum handverkshlutum þeim sem Petra hefur unnið í gegnum tíðina, stæði einungis í fáeinar klukkustundir síðasta laugardag. Þegar ljóst varð að gestafjöldinn þann dag nálgaðist 300 manns var ákveðið að framlengja sýninguna alla þessa viku fram á laugardaginn kemur.

Sýningin, sem dætur Petru komu á koppinn, er afar forvitnileg enda Petra meira og minna unnið að handverki af ýmsum toga allt frá átta ára aldri. Þar gefur meira að segja að líta prjónaðan stafaklút sem Petra gerði á þeim aldri undir leiðsögn ömmu sinnar í Jökulsárhlíð en sá klútur var fyrsta skrefið á handverksferli sem enn sér ekki fyrir endann á þó Petra sé orðin níræð.

„Ég hef nú minnkað handavinnuna aðeins upp á síðkastið,“ segir Petra, sem er hógvær mjög og vill ekki gera mikið úr verkum sínum sem eru af ýmsum toga þó prjónamunir séu fyrirferðamestir. Á sýningunni má meðal annars gefa að líta skreyttar hillur, trépressu og myndaramma sem Petra smíðaði sjálf, bækur sem hún lærði snemma að framleiða og binda auk mikils fjölda kjóla, dúka, skófatnaðar, belta, húfa og vettlinga og annarra klæða sem hún hefur dundað sér við frá unga aldri. Verk hennar þykja svo bera af að sjálft Þjóðminjasafn Íslands hefur lengi selt vörur hennar í verslun sinni.

Sjálf er Petra hrærð yfir góðum viðtökum við sýningunni: „Mér hafa borist alls kyns kveðjur frá ýmsum aðilum og fengið marga til mín hér á sýninguna og það þykir mér mjög vænt um. Ég hef alla tíð haft afskaplega gaman af því að prjóna, föndra og prófa mig áfram með eitt og annað og alltaf fengið góða leiðsögn frá þeim mörgu kennurum sem ég hef haft gegnum árin. Það held að sé mikilvægara en margur heldur hversu góða kennara fólk er með á lífsleiðinni.“

Petra sjálf tekur á móti fólki með virktum á sýningunni og kann sögur tengdar flestum þeim hlutum sem þar eru til sýnis. Sýningin opin út vikuna eftir hádegið en lýkur á laugardaginn kemur viku síðar en áætlað var.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.