Heimsendingar endurvaktar í heimsfaraldri

Austfirskir veitingastaðir hafa tekið upp heimsendingar til að bregðast við takmörkunum vegna útbreiðslu covid-19 veirunnar. Rekstrarstjóri flatbökustaðarins Asks á Egilsstöðum segir heimsendingarnar bjargráð fyrir staðinn en viðskiptavinir hafi tekið þeim vel.

„Við byrjuðum á mánudaginn fyrir viku. Þetta var bjargráð. Ferðamönnunum hafði fjölgað í hverri viku en svo hurfu þeir.

Þetta hefur gengið mjög vel og viðskiptavinir tekið heimsendingunum frábærlega,“ segir Jón Vigfússon, rekstrarstjóri og pizzasendilll hjá Aski.

„Að keyra sendingarnar heim hefur aðallega lent á mér, enn sem komið er,“ segir Jón, sem mun vera fyrsti pizzasendillinn á Egilsstöðum frá árinu 2002.

Fjölmargir austfirskir veitingastaðir hafa gert breytingar á rekstri sínum að undanförnu. Borðum hefur verið lokað til að tryggja fjarlægðir og viðskiptavinum afhent hnífapör og drykkjarföng til að minnka líkurnar á smiti. Sumir bjóða upp á heimsendingar, aðrir hafa stytt opnunartíma og enn aðrir lokað.

Askur er meðal þeirra staða sem stytt hafa opnunartíma sinn, en nú er opið þar seinni partinn frá 17-22, sem er sami tími og heimsendingaþjónustan hefur verið í boði á.

Aðstandendur Asks hafa haft hraðar hendur, því í kjölfar þess að ákveðið var að bjóða upp á heimsendingarnar var heimasíðunni breytt þannig að hægt væri að panta í gegnum hana. Með næstu uppfærslu, sem von er á að verði á næstu dögum, verður hægt að greiða í gegnum hana líka.

„Skipulagið okkar er ekki flókið og þess vegna er einfalt fyrir okkur að gera breytingar til að innleiða nýja hluti. Við vissum að þetta þyrfti að gerast hratt.

Við höfum fundið fyrir góðum viðbrögðum. Fólk hefur verið duglegt að nýta bæði heimsendinguna og heimasíðuna frá fyrsta degi og við höfum fengið mikið hrós fyrir.“

Og vinsælasta pizzan í heimsendingunni ber nafnið Vöðvastæltur – en á henni er skina, beikon, pepperoni og rjómaostur. „Fólk er alltaf jafn hrifið af henni.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.