Heillaðist af tækninni í sjávarútvegi

Fanney Björk Friðriksdóttir er 26 ára Vopnfirðingur og starfar sem gæðastjóri HB Granda á Vopnafirði. Hún er sjávarútvegsfræðingur að mennt og segir að sjávarútvegurinn sé að þróast frá því að vera jafn mikill karlageiri og hann hefur verið.

Fanney er alin upp við sjávarútveg en segist þó alls ekki hafa stefnt að því að vinna við hann frá því að hún var barn. „Pabbi minn er sjómaður og afi minn var sjómaður. Auðvitað var maður alltaf í kringum sjávarútveginn en þeir voru ekkert að ota þessu að mér. Ég vissi þess vegna alls ekki að ég ætti eftir vinna við sjávarútveg. Ég ætlaði mér það aldrei. Ég var með ákveðnar hugmyndir um að þetta væri ótrúlega óspennandi starfsvettvangur og sá mig alls ekki í þessu. En svo er aðal sumarvinnan fyrir unglinga hérna á Vopnafirði hjá HB Granda, yfirleitt næg vinna og góður peningur sem skólakrakkar og sumarstarfsfólk. Ég byrjaði að vinna við uppsjávarfrystingu þegar ég var 17 ára og þá fór mér að finnast þetta svolítið spennandi, krefjandi og svolítil áskorun.“

„Það var tæknin og framfarirnar sem heilluðu mig“
Fanney segist hafa heillast af tækninni þegar hún byrjaði í sumarvinnu við fiskvinnslu og uppúr því ákvað hún að nema sjávarútvegsfræði. „Uppsjávarfrystingin er frekar tæknivædd, vinnan felst þess vegna mikið í því að fylgjast með tækjum og þróunin hefur verið hröð undanfarin ár. Ég er ekkert viss um að ég hefði heillast jafn mikið af þessu ef ég hefði verið í sumarvinnu við að snyrta bolfisk, að því ólöstuðu, það er bara ekki fyrir mig. Það var tæknin og framfarirnar sem heilluðu mig. Þannig að í kjölfarið ákvað ég að mig langaði að prófa að fara í þetta nám, sjávarútvegsfræði. Það heillaði mig líka við þetta nám að það gefur starfstækifæri hérna í heimabyggð en líka útum allan heim. Ef maður vill flytja til útlanda í framtíðinni þá eru mörg tækifæri í þessum geira,“ segir Fanney Björk.

Fanney er ánægð með námið í sjávarútvegsfræðinni og segir það hafa gefið sér mikilvægan stökkpall inn í greinina. „Mér finnst þetta gott nám og ég myndi mæla með því við fólk. Þetta er kennt við Háskólann á Akureyri. Ég byrjaði í náminu árið 2014, tók eitt ár í skólanum á Akureyri og fór svo að vinna hjá HB Granda sem vaktformaður og var í fjarnámi í tvö ár. Ég hef starfað hérna síðan og er nýlega orðin gæðastjóri. Þetta er mjög sniðugt nám. Þetta er blanda af efnafræði og líffræðigreinum, viðskiptafræði og svo beinlínis sjávarútvegstengdum greinum. Menntunin hefur gefið mér mikið, hún var stökkpallur fyrir mig. Ég kynntist líka fullt af flottu fólki sem er einnig í góðum stöðum á vinnumarkaði í dag, sem eflir klárlega tengslanetið. Námið er líka það víðtækt að það getur gefið tækifæri á mörgum sviðum, ekki einungis við veiðar og vinnslu heldur markaðsmál, fjármál, stjórnunarstöður og jafnvel tækifæri utan sjávarútvegsfyrirtækja. Námið er mér mikilvægt en ég myndi ekki segja að það sé krafa innan geirans, þó svo að menntun í greininni sé klárlega að aukast og menntunarstigið að hækka. Ég hefði kannski getað sinnt þessu starfi án þess að mennta mig, starfsreynsla er auðvitað líka gífurlega mikilvæg og maður lærir mest af því að vinna við hlutina, en það hefði auðvitað tekið miklu lengri tíma að komast inn í starfið og ég hefði þurft að sækja fjölda námskeiða.“

„Sjávarútvegurinn hefur verið mikill karlageiri“
Fanney tók við starfi gæðastjóra fyrir skömmu og segir það spennandi starf. „Gæðastjóri sér um að ýmsum stöðlum sé fylgt, þetta eru staðlar bæði fyrir kaupendur og okkur sjálf, við þurfum að passa uppá þessa staðla og passa að við séum að gera okkar allra besta með hráefnið til að skapa eins góðar afurðir og hægt er. Það þarf bara að passa að allt sé eins gott og það getur orðið. Við sendum sýni frá okkur, ég er að taka prufur og er á gólfinu að fylgjast með en svo er þetta mikil skrifstofuvinna, mikið af pappírum sem þarf að sinna. Þetta er mjög skemmtilegur starfsvettvangur, það eru svo örar breytingar og þetta er mjög krefjandi. Maður verður að vera á tánum en fyrst og fremst er þetta skemmtilegt.“ segir Fanney Björk.

Fanney er í yfirmannsstöðu í dag og var það raunar strax þegar hún fór að starfa sem vaktformaður árið 2015, hún segir að það hafa verið ákveðna áskorun fyrir sig sem unga konu. „Þetta er og hefur náttúrulega verið mikill karlageiri en ég held að það sé að breytast. Í náminu er mjög mikið af stelpum og ég hef séð breytingar sjálf undanfarin ár. Mér fannst þetta erfiðara fyrst, mér fannst skrýtið að vera yfirmaður karla sem eru miklu eldri en ég og hafði upplifað það áður en ég fékk starfið að einstakir menn höfðu ekki mikla trú á mér. Það voru þó líka margir sem studdu mig og ég fann aldrei fyrir neinu vantrausti eða efasemdum frá vinnuveitendum mínum, þvert á móti. Með tímanum verður maður hluti af hópnum og ég finn ekki mikið fyrir þessu núna. Ég var til dæmis alltaf í barnaafmælum hjá barni eins samstarfsmanns míns. Þeir finna kannski meira fyrir þessu en ég. Það er samt mjög gaman að vera hluti af þessum hópi og jafnvel breyta viðhorfi einhverra.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.