Heiðursgestur frá Ástralíu á Kommablótinu í ár

Laugardaginn 2. febrúar verður 53. Kommablótið haldið í íþróttahúsinu í Neskaupstað. Að þessu sinni kemur heiðursgesturinn alla leið frá Ástralíu.



Kommablót er þorrablót af bestu gerð sem hefur öðlast miklar vinsældir og er afar fjölsótt. Margir bíða spenntir eftir blótinu hvert einasta ár og mörg dæmi eru um að fólk komi jafnvel erlendis frá til að upplifa hið eina sanna Kommablót.

Það var Sósíalistaflokkurinn í Neskaupstað sem hóf blótshaldið árið 1965 og gátu þá einungis flokksbundnir fengið miða og síðan boðið með sér gestum. Með tímanum varð allt frjálslegra hvað miðasöluna varðaði og að því kom að bæði Sósíalistaflokkurinn og síðar Alþýðubandalagið heyrðu sögunni til. Hefðir þessa blóts lifðu þó áfram og nafninu á blótinu varð ekki breytt; blótið hélt áfram að vera Kommablót þó það væri galopið allra flokka kvikindum. Eins hefur alla tíð sá háttur verið á hafður að sérhver hópur sem blótið sækir hefur séð um sinn þorramat og haft hann með sér í trogi. 

Athyglisvert er að þeir sem annast hafa blótið hafa verið einstaklega úthaldsgóðir. Sem dæmi má nefna að í rúma hálfa öld hafa blótsstjórarnir einungis verið fjórir talsins og Stefán Þorleifsson, sem lengst gengdi því hlutverki,var blótsstjóri á 25 blótum. Þá ber að nefna að gerð og flutningur annáls hefur verið í höndum örfárra manna sem jafnvel hafa sinnt hlutverki sínu áratugum saman. Þorrablótsnefnd sem kosin er til eins árs er fyrirbæri sem á ekki við þegar rætt er um Kommablót. 

Frá upphafi og til ársins 2015 var blótið haldið í félagsheimilinu Egilsbúð. Aðsókn að blótinu óx nánast ár frá ári og að því kom að Egilsbúð rúmaði ekki fjöldann. Árið 2016, þegar 50. blótið var haldið, fór það fram í íþróttahúsinu og þar hefur heimili þess verið síðan. 

Snemma skapaðist sú hefð að heiðursgesti var boðið á blótið og hafa margir þeirra vakið mikla lukku með framlagi sínu. Að þessu sinni kemur heiðursgesturinn frá Ástralíu og er tilgangur ferðar hans til Íslands eingöngu sá að upplifa Kommablót og heiðra það með nærveru sinni.

Heiðursgesturinn er Gunnar Þór Víkingur sem eldri Norðfirðingar kalla oftast Dada. Dadi ólst upp í Neskaupstað til 15 ára aldurs en fluttist til Ástralíu ásamt fjölskyldu sinni árið 1969 eða fyrir nákvæmlega 50 árum. Systkini hans voru mörg og muna eflaust margir eldri Norðfirðingar eftir Víkingunum; Dada og bræðrum hans. Þeir bræður voru miklir fjörkálfar en gerðu líka oft heilmikinn óskunda með alls konar uppátækjum. Dadi og systkini hans hafa ávallt haldið ákveðnum tengslum við Norðfjörð og þar liggja rætur þeirra þó meirihluta ævinnar hafi þau varið hinum megin á hnettinum. Fullvíst má telja að Dadi kunni frá mörgu bráðskemmtilegu að segja frá uppvaxtarárunum í Neskaupstað.

Nú nálgast 53. Kommablótið og það er full ástæða til að hefja undirbúning; pressa sparifötin, mýkja raddböndin, draga fram dansskóna og gera hláturtaugarnar klárar. Eitt er víst að það verður ákaflega gaman þá.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.