„Hei, af hverju ekki að opna bar?“

„Við ætlum bara að heyja eitt stríð í einu og byrja á Íslendingunum og því næst sannfærum við Skandinavana,“ segir Breiðdælingurinn Herdís Hrönn Árnadóttir sem rekur barinn Nostalgia á Tenerife ásamt manni sínum og nýtur hann mikilla vinsælda.Herdís og maður hennar, Sævar Lúðvíksson, hafa undanfarið ár staðið vaktina á Nostalgíu. Herdís er fatahönnuður að mennt og átti að baki fjölbreyttan og farsælan feril þegar hún ákvað að nú væri nóg komið og tími til að að gera eitthvað nýtt. Herdís sagði sögu sína í síðasta tölublaði Austurgluggans.

Herdís og Sævar kynntust árið 2012. „Hann hafði einnig ferðast mikið og við svo saman. Í fyrsta skipti sem við komum til Tenerife urðum við alveg heilluð og sammála um að þetta væri staður sem við gætum hugsað okkur að búa á, róleg og notaleg eyja. Þarna var ég enn að vinna hjá Hagkaup og mjög ánægð í mínu starfi og Sævar var handviss um að ég myndi aldrei fara þaðan. Þó svo að starfið mitt hafi verið mjög fjölbreytt og skemmtilegt fann ég að ég var tilbúin að hætta.“

Herdís og Sævar ræddu málin og komust að þeirri niðurstöðu að þau vildu prófa að freista gæfunnar og reyna eitthvað nýtt. „Við sögðum hvort við annað: Hei, af hverju ekki að opna bar. Fólk hélt að við værum að grínast og þreyttist ekki á því að segja okkur að við værum alveg klikkuð en við svöruðum bara: Af hverju ekki? Þeir sem þekkja mig hins vegar vita að ef ég fæ hugdettu þá framkvæmi ég hana oftast nær.“


Eini íslenski barinn á eyjunni

Nostalgía er eini íslenski barinn á Tenerife og segir Herdís markhópurinn þeirra vera Íslendinga, í það minnsta fyrst um sinn.

Ég held að til okkar hafi komið gestir af öllum Austfjörðunum, já og frá langflestum stöðum af landinu. Við förum á flugvöllinn þegar vélarnar frá Íslandi koma og það hefur gefist vel, auk þess sem orðið er farið að berast. Hér myndast mikil stemming og Íslendingar eru alveg yndislegir gestir. Við fáum allan aldur, alveg frá ungum börnum upp í fólk um nírætt. Við spilum þetta bara eftir því hvernig hóparnir eru samsettir hverju sinni, það hefur verið eldra fólk í vetur en nú fer það að yngjast með vorinu.“

Herdís segir þau Sævar hafa runnið alveg blint í sjóinn en hvorugt þeirra hafði unnið á bar áður. „En, við höfum bæði gaman af fólki og við ákváðum að við myndum bara læra þetta eins og hvað annað. Nú finnst okkur við orðin voða sjóuð og höfum smátt og smátt verið að bæta við og erum til dæmis alltaf með fjölmennar grillveislur á föstudögum og pönnukökukaffi á sunnudögum.“

Auk þessa hafa þau Herdís og Sævar boðið upp á ýmsa viðburði eins og skötuhlaðborð á Þorláksmessu, sýnt dagskrárliði á borð við Fanga, Útsvar og ýmsa landsleiki þegar Ísland á í hlut.


Sinna öllum störfum

Það er nóg að gera hjá þeim skötuhjúum. „Við erum bara tvö í þessu þannig að við erum allt í senn – barþjónninn, skúringakonan, söngvarinn, markaðsstjórinn, uppvaskarinn, fjármálastjórinn og allt hitt. Við erum nánast alltaf með gesti heima sem hafa hjálpað okkur á stóru dögunum eins og við grillveislurnar.

Við erum með besta „Mojitoinn“ á eyjunni en hann lögum við frá grunni eins og gert er á Íslandi en hér er mikið um tilbúin mix sem eru ekki eins góð. Ég hef verið mjög kokhraust og auglýst hann þannig og við höfum enn ekki verið hrakin fyrir það og erum að verða þekkt fyrir hann.“


„What will be will be“

Herdís segir að vissulega sé erfitt að vera fjarri börnum og fjölskyldu en samtals eiga þau fjögur börn og þrjú barnabörn sem þau vildu gjarnan hafa nær. Aðspurð hvort hún eigi sér einhverja framtíðardrauma segir hún: „Það eru engir framtíðardraumar því þegar ég fæ hugdettu eiga þær að gerast strax – þannig að nú er ég hér og einbeiti mér ekki að neinu öðru. Það er þá kannski helst að gera vel hér á Tenerife, einbeita okkur að þessu litla barni okkar sem Nostalgía er og sjá það vaxa og dafna.“

Hún segir dvölin á Spáni hafi gert sér gott. „Ég er bjartsýnismanneskja en einnig afar óþolinmóð. Ég held hreinlega að ég hafi verið send hingað til þess að læra að slaka á. Hér eru allir svo rólegir og „maniana“ merkir á morgun en það gerist bara einhverntíman.“

Hér er Facebooksíða Nostalgiu. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar