Hátíðin fer alltaf stækkandi

Vetrarhátíðin List í ljósi verður haldin á Seyðisfirði um helgina. Þó má segja að hátíðin í ár spanni heila viku því kvikmyndahátíðin „Flat Earth Film Festival” er í fyrsta skipti haldin undir merkjum hennar.



„Þetta er fjórða árið í röð sem við höldum hátíðina sem fer alltaf stækkandi,” segir Sesselja Hlín Jónasardóttir, annar stofnandi og framleiðslustjóri Listar í ljósi, sem hlaut Eyrarrósina í gær, viðurkenningu fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Þá hafa verk frá List í ljósi verið á Listahátíð Reykjavíkur síðastliðin tvö ár.

„Hátíðin verður sérlega glæsileg að þessu sinni en í ár sameina List í ljósi og HEIMA gestavinnustofa hér á Seyðisfirði krafta sína og hleypa af stokkunum nýju norrænu verkefni samhliða hátíðinni. Sex listamönnum, sem allir voru tilnefndir af listrænu ráðgjafateymi, var boðið tveggja mánaða gestavinnustofudvöl í hinu einstaklega vel hönnuðu HEIMA rými, til að skapa staðbundið verk fyrir List í ljósi,” segir Sesselja Hlín.

Fimm ljósalistaverk verða víðsvegar um Seyðisfjarðakaupstað á föstudags og laugardagskvöld, en ljósin verða kveikt milli klukkan 18:00 og 22:00 báða dagana. Auk þess verða svokallaðir „pop-up” viðburðir verða hér og þar.


Global Warming þemað í ár
Sesselja Hlín segir kvikmyndahátíðina Flat Earth Film Festival hafa orðið til út frá vikulegum kvikmyndaklúbbi sem var stofnaður og starfræktur á Seyðisfirði í vetur af þeim Arndísi Ýr Hansdóttur og Austin Thomasson. „Markmið hátíðarinnar er að veita áhorfendum tækifæri til þess að fara í bíó, njóta þess að horfa saman á kvikmyndir í myrkrinu og bjóða upp á einstaka upplifum í hvert sinn,” segir Sesselja Hlín, en þemað í ár er Global Warming. Tveir sýningardagar eru eftir, í dag og á morgun.


Gefandi að sjá verkefnið vaxa og dafna
Sesselja Hlín segir það einstaka tilfinningu að fá að sjá verkefnið vaxa og dafna, en Celia Harrison hefur unnið með henni að hugmyndinni frá upphafi.

„Þetta er alveg ótrúlega dásamlegt. En, þegar maður er svona tengdur ákveðnu verkefni er alltaf erfitt að stíga til hliðar og átta sig á því hversu stórt og flott það er orðið. Við erum báðar svo fastar í kjarnanum að við þurfum stundum að minna okkur á hversu mikið við erum búnar að gera og hversu langt hátíðin hefur náð.”

Ljósmynd: Nikolas Grabar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.