Hálfvitar í öllum hornum

Leikfélag Fljótsdalshéraðs sýnir í kvöld gamanleikinn Tom, Dick & Harry. Formaðurinn segir félagið hafa ráðist í metnaðarfulla uppsetningu og æfingatímabilið hafa verið stutt en snarpt.

„Handritið að verkinu er 164 síður, heldur lengra en við höfum sett upp síðustu ár. Í því er talsverður texti og flækjustig þegar líður á.

Þetta útheimtir líka níu leikara. Við ætluðum að reyna að finna verk fyrir sex, sem hefur verið meðalfjöldinn okkar síðustu ár, en þegar við fórum að lesa handritið fannst okkur það svo skemmtilegt að við vildum ráðast í það.

En Leikfélag Fljótsdalshéraðs er þekkt fyrir metnað þannig við tókum slaginn. Við lentum í smá basli við að fá leikara, sá síðasti bættist við um síðustu helgi en hann er alveg kominn inn í hlutverkið.

Lokaæfing er í kvöld og frumsýningin á morgun. Við erum að klára að ná þéttleikanum. Æfingatímabilið hefur verið átta vikur en gengið vel. Það er dæmigert að komin sé smá þreyta í hópinn rétt fyrir frumsýningu en þetta verður gott á morgun,“ segir Einar Sveinn Friðriksson, formaður Leikfélags Fljótsdalshéraðs.

Hann lýsir verkinu sem „vandræðafarsa.“ Aðalpersónurnar eru þrír bræður, sá elsti er sækja um að ættleiða barn með konu sinni og kaupa hús á sama tíma. Yngri bróðir hans fær þá hugmynd að ræna líki og grafa í garði hússins til að lækka kaupverðið. Aðrir átta sig á hve vond hugmyndin er og við tekur vandræðagangur við að losna við líkið áður en ættleiðingafulltrúinn mætir á svæðið.

Leikritið sem samið af Ray og Michael Cooney en hefur nokkrum sinnum verið sett upp hérlendis. Því er leikstýrt af Ármanni Guðmundssyni, sem þekktur sem einn af meðlimum Ljótu hálfvitana, en dóttir hans hannaði sviðsmynd þegar verkið var sett upp í Hafnarfirði fyrir tveimur árum.

Árið hefur verið annasamt hjá leikfélaginu en fyrr á þessu ári setti það upp sýninguna Fullkomið brúðkaup. Það hafði hins vegar verið æft síðasta haust en sýningum frestað vegna samkomutakmarkana.

Sýnt verður í félagsheimilinu Iðavöllum og er frumsýningin á morgun klukkan 20:00. Síðasta sýning verður 7. nóvember.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.