Orkumálinn 2024

Halda bæjarhátíð til að afla fjár fyrir félagsaðstöðu

Bæjarhátíðin Útsæðið verður haldin á Eskifirði um helgina. Aðalhvatinn að baki henni er að afla fjár til að byggja upp félagsheimilið Valhöll og aðstöðu fyrir ungt tónlistarfólk þar steinsnar frá.

„Það hefur alltaf verið mikill tónlistaráhugi í bænum en hann datt niður þegar æfingaaðstaða fyrir hljómsveitir hvarf. Það var bílskúr hér úti í bæ sem sveitirnar æfðu í en þær hættu þegar hann var rifinn,“ segir Kristinn Þór Jónasson, einn aðalforsprakka Útsæðisins.

Hann tilheyrir einnig hóp sem unnið hefur að því að byggja upp æfingaaðstöðu í gömlu bæjarskrifstofunum. Aðstaðan var opnuð í vetur. „Við viljum vera þar með hljóðfæri og græjur þannig að krakkarnir þurfi ekki að mikla fyrir sér að kaupa þær.“

Þeir listamenn sem koma fram á hátíðinni taka ekki laun heldur leggja til fram vinnu í þágu hljómsveitaraðstöðunnar og uppbyggingar í félagsheimilinu Valhöll. „Við höfum verið að byggja það upp sem afþreyingarmiðstöð.

Við höfum verið að safna þar fyrir aðstöðu fyrir krakka til að gera stuttmyndir og hljóðið í þær væri hægt að finna í tónlistaraðstöðunni. Hún nýtist líka fyrir sveitir til að koma fram á Útsæðinu – þannig þetta helst allt í hendur.“

Hátíðin hefst annað kvöld með bíósýningum í Valhöll en á föstudag verður gamanleikurinn Hellisbúinn sýndur þar. Aðaldagurinn er á laugardag með fjölskyldudagskrá á Eskjutúninu yfir daginn. Um kvöldið verður þar kvöldvaka með fjölda austfirskra tónlistarmanna áður en slegið verður upp balli í Valhöll. Á kvöldvökunni verður líka stærsta grill landsins þar sem grillaðir verða tíu lambaskrokkar samtímis.

Meðal þess sem í boði verður á laugardag er kökukeppni. „Nei, ég efa að ég verði með þar. Það verður þá bara Betty Crocker kaka ef ég næ að gera eitthvað!“ segir Kiddi Þór sposkur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.