Hafa byggt upp fjölskylduparadís á Finnsstöðum

Hjónin Helga Guðrún Sturlaugsdóttir og Sigurður Hlíðar Jakobsson, eða Siggi Jak, hafa undanfarin ár byggt upp hestaleigu- og afþreyingarmiðstöð á bænum Finnsstöðum í Eiðaþinghá í samvinnu við fleiri. Gestafjöldi og viðburðum hefur fjölgað ár frá ári.

Í vetur var þar til að mynda haldið jólaball og gestir voru hátt á þriðja hundrað. Og nú er ætlunin að færa enn út kvíarnar og bæta við tjald- og hjólhýsasvæði á jörðinni.

„Það hefur verið mikil umferð af fólki, einkum erlendir ferðamenn. Það eru flestir dagar ársins bókaðir í hestaleigunni. En flestir stoppa stutt og okkur langar að breyta því. Á næstu misserum ætlum við því að útbúa tjald- og hjólhýsasvæði hér á jörðinni, með öllu sem því tilheyrir; snyrtingum og rafmagni. Með því móti vonumst við til að fá fólk til að stoppa lengur og njóta betur þess sem staðurinn hefur upp á að bjóða,“ segja þau í viðtali í Austurglugga vikunnar.

„Þegar við keyptum Finnsstaði var hugmyndin upphaflega sú að þetta væri aðstaða fyrir okkar eigin hestamennsku. Við leigðum jörðina til að byrja með í eitt ár áður en við ákváðum að kaupa. Við ætluðum ekki að búa hér, heldur leigja út þau tvö íbúðarhús sem eru hér.

Síðan bættist hestaleigan við og smám saman eitt og annað til viðbótar, til dæmis reiðskóli fyrir börn sem Brynja Rut Borgarsdóttir hefur séð um. Og nú erum við flutt í annað íbúðarhúsið og Siggi kominn í fullt starf hér heima.“

Í viðtalinu rifja þau meðal annars upp þegar þau hittust fyrst, þegar Helga og vinkona hennar höfðu fest bíl sinn í snjóskafli á Egilsstöðum.

„Þá birtist allt í einu maður í ljósgeislanum fyrir framan bílinn og ég vissi um leið að þetta væri minn maður, þetta var ást við fyrstu sýn. Hjá mér það er að segja, Siggi var náttúrulega blindaður af ljósunum,“ segir Helga.

Héraðsbúa þekkja flestir Sigga sem verkstjóra hjá Myllunni stál og vélum. Þar vann hann árum saman þrátt fyrir að vera ekki lærður vélsmiður. „Ég fékk snemma áhuga á öllu sem kraftur var í; mótorhjólum og bílum og allskonar vélum. Ég fór snemma að heiman og vann á gröfum í ein 20 ár. Því fylgir vissulega allskyns bras og viðgerðir, þannig að ég var ekki alveg óvanur að gera við vélar.

En það var ekki fyrr en ég flutti hingað austur aftur eftir fjögurra ára dvöl í höfuðborginni að ég fór að vinna í smiðjunni. Mér hefur alltaf fundist ég kunna allt sem þarf að gera, hvort sem það er vélsmíði, að járna hesta, eða bara hvað sem er. Mottóið er: Ef þeir geta það, þá hlýt ég að geta það líka. Ég fæ mér bara tilheyrandi verkfæri og geng í málið. Það hefur aldrei klikkað,“ segir Siggi og hlær sposkur á svip.

Hann segist hafa reynt að hætta í nokkur ár en illa gengið. Hann hafi þó viljað breyta til og tækifærið hafi skapast samhliða vextinum á Finnsstöðum.

Hluti af „áhöfninni“ á Finnsstöðum: Frá vinstri: Stefán Einarsson, Helga Guðrún, Anna Guðlaug Guðbjörnsdóttir, Ragnar Smári Sindrason, Brynja Rut Borgarsdóttir, Sindri Snær Birgisson og Magnús Þórarinsson. Fyrir framan eru þær Birgitta Borgþórsdóttir og Tekla Tíbrá Freysdóttir. Mynd: Jens Einarsson

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.