Guðmundur R. fær menningarverðlaun SSA

Tónlistarmaðurinn Guðmundur R. Gíslason í Neskaupstað er handhafi menningarverðlauna Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) í ár. Til kynnt var um verðlaunin á haustþingi sambandsins sem haldið var í fjarfundi í dag.

„Ég er virkilega djúpt snortinn að fá þessa viðurkenningu. Hún er mér hvatning til að gera enn betur og halda áfram. Ég vil leyfa mér að deila þessum verðlaunum með konunni minni og öllu því góða fólki sem ég hef unnið með í gegnum tíðina.

Að skapa veitir mér innri ánægju og því mun ég halda áfram að skapa á meðan ég dreg andann og einhver er að hlusta,“ sagði Guðmundur í ávarpi sínu á þinginu.

Í rökstuðningi fyrir valinu segir að Guðmundur sé einn af farsælustu dægurtónlistamönnum Austurlands. Ferill hann hófst um miðjan níunda áratuginn þegar hann stofnaði og varð aðalsöngvari hljómsveitarinnar Súellen, sem gaf út fjölda vinsælla laga sem sum hver hafa lifað.

Hann hefur síðan gefið út þrjár sólóplötur, þá síðustu í fyrra. Upptökur á þeirri fjórðu eru hafnar. Þessu til viðbótar hefur hann verið virkur í menningarlífi Norðfjarðar, rekið félagsheimilið, sungið í kór, sett á laggirnar tónlistarverkefni og fleira. „Allt hans starf sýnir að honum er annt um samfélagið sitt og leggur mikið á sig til að gera veg þess sem mestan á menningarsviðinu,“ segir í umsögninni.

Þar er einnig komið inn á að málefni hinna dreifðu byggða séu honum hjartans mál, eins og gjarnan megi finna í textum hans. Hann sæki í brunn trúbadora sem hann hlustaði á í æsku og sé óhræddur að fjalla um málefni alþýðunnar. Meðal yrkisefna hans hafa verið Alzheimer-sjúkdómurinn, fíkniefnaneysla, sjálfsvíg og snjóflóðin í Neskaupstað.

„Samhliða er Guðmundur líka frábær skemmtikraftur líkt og dansleikjagestir á Austurlandi vita. Guðmundur er vel að þessum verðlaunum komin núna enda hefur hann verið einstaklega virkur og afkastamikill, eins og fram hefur komið, allan sinn feril og afkastagetan, ef eitthvað er, fer stigvaxandi með aldrinum.

Verðlaunin eru veitt árlega einstaklingi, stofnun eða samtökum á Austurlandi fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar.

Mynd: Austurbrú


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.