Grýlubörn vísitera þótt ekki sé messufært

Þríeykið Grýlubörn leggur um helgina upp í tónleikaferð um landið. Ferðin verður þó óhefðbundin því engir áhorfendur verða á tónleikunum heldur verða þeir sendir út í beinni útsendingu. Þau segja ákveðna skyldu vera á tónlistarfólki að halda áfram að sinna íbúum á landsbyggðinni.

Grýlubörnin eru þau Svavar Knútur Kristinsson, Halldór Sveinsson og Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir, tónlistarkona frá Borgarfirði eystra.

Þau voru að leggja af stað úr Reykjavík þegar Austurfrétt náði tali af þeim en þau munu spila á Húsavík í kvöld áður en þau koma austur á morgun.

„Okkur langar að geta vísiterað þótt ekki sé messufært. Okkur finnst mikilvægt að tónlistarfólk sýni lit og mæti á svæðið. Það þarf ekki alltaf að græða, stundum er bara nóg að vera.

Sem landsbyggðarfólk verðum við að komast út á land og höfum ákveðna þörf fyrir að leggja á veginn og njóta hans. Við gerum þetta bæði fyrir okkur og þá sem vilja geta fengið tónleika frá sinni heimabyggð.

Þess vegna erum við ótrúlega ánægð að geta látið vaða til að skemmta okkur og öðrum. Við verðum samt að sýna ábyrgð, keyra fallega og lenda ekki í neinu veseni,“ segir Svavar Knútur.

Á tímum Covid-veirunnar er samt vandmeðfarið að fara í tónleikaferð um landið. Þess vegna verða engir áhorfendur á tónleikunum sjálfum. „Við verðum að gæta að okkur að knúsa engan og virða mörk og heilsu annarra. Við viljum rjúfa einangrunina án þess að valda neinum óþægindum,“ segir Svavar.

Á efnisskránni verða lög úr ýmsum áttum, jólalög en ekki þau alhátíðlegustu meðal annars um Grýlu sem er í miklu uppáhaldi hjá tríóinu. Eins verða lög eftir þau sjálf, Bítalana og fleiri. „Við hugsum þetta sem aðventutónleika,“ segja þau.

Fyrstu tónleikarnir eystra verða sendir út frá Tehúsinu á Egilsstöðum á morgun klukkan 15:00, þeir næstu frá Bakkagerðiskirkju klukkan 20:30 um kvöldið og loks frá Hótel Framtíð á Djúpavogi klukkan 15:00 á sunnudag.

Aldís Fjóla segist hlakka sérstaklega til tónleikanna í kirkjunni. „Það verður innilegt að vera þar og ég hlakka til að streyma frá fallegri kirkju sem er í miklu uppáhaldi hjá mér.“

Tónleikarnir verða aðgengilegir bæði á Facebook-síðum Svavars og Aldísar auk YouTube-rásar hans. Þeir eru öllum opnir en Grýlubörnin taka á móti akstursstyrkjum á Tix.is. Á veitunum má einnig sjá fyrri tónleika þeirra. Á YouTube-rásinni má einnig senda tónlistarfólkinu textaskilaboð á meðan tónleikunum stendur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.