Golden Globe verðlaunahafi söng um ævintýri Ringo Starr í Atlavík

Hildur Guðnadóttir varð nýliðna nótt annar Íslendingurinn til að hljóta Golden Globe verðlaunin en hún fékk þau fyrir frumsamda tónlist í kvikmyndinni um Jókerinn. Áður en Hildur öðlaðist frama í kvikmyndatónlist var hún í popphljómsveit og söng þar um komu Ringo Starr á Atlavíkurhátíðina árið 1984.

Lagið Atlavík ´84 er fyrsta lag plötunnar Ghengi Dahls sem hljómsveitin Rúnk gaf út árið 2002. Lagið naut mikilla vinsælda það ár.

Hildur fór fyrir sveitinni en henni var þá lýst sem „einum efnilegasta sellóleikara landsins“ af einum gagnrýnanda. Hildur syngur lagið sem segir frá ævintýrum Ringo Starr, sem var gestur Atlavíkurhátíðarinnar árið 1984, með nokkrum kómískum hætti eins og lesa má hér undir fréttinni.

En hljómsveitin Rúnk á sér fleiri tengingar austur á land heldur en Atlavíkurlagið. Hildur stofnaði sveitina ásamt Benedikt Hermanni Hermannssyni, eða Benna Hemm Hemm sem kenndi Seyðfirðingum tónlist síðustu tvo vetur. Meðal þeirra þau hóuðu í var Svavar Pétur Eysteinsson, eða Prins Póló og staðarhaldari að Karlsstöðum í Berufirði.

„Við fimm sem vorum í hljómsveitinni vorum náinn vinahópur. Innan hans var mikill einkahúmor og bæði þetta lag sem og platan öll ber keim af því,“ segir Benedikt þegar hann rifjar upp lagið.

Unglingar í skapandi sumarstörfum

Hljómsveitin varð til upp úr hóp á vegum Reykjavíkurborgar þar sem ungt listafólk fékk tækifæri til að vinna við sköpun. Benedikt og Hildur voru í hóp sem fluttu tónlist víða um borgina. Hópnum bauðst fara erlendis til að spila og þá var hóað í hina þrjá. „Við smullum saman af svona miklum krafti.“

Benedikt segir það hafa verið þeim kærkomið tækifæri að starfa í listahópnum hjá borginni. „Þetta var draumastarf fyrir unga tónlistarmenn. Það skiptir máli fyrir fólk að fá tækifæri til að starfa við það sem það hefur gaman af.“

Lagið var töluvert vinsælt sumarið 2002 en Benedikt segir það aldrei hafa verið markmiðið. „Við vorum af indíkynslóð þar sem var ekki kúl að vera vinsæll þannig við stíluðum ekki á það. Við skiljum þetta ekki í dag.“

Hann segist ekki muna hver hafi verið hlutverkaskiptingin milli meðlima Rúnks við gerð lagsins en hefur gaman af því að rifja upp textann sem inniheldur meðal annars vísun í sögu um að Ringo hafi heimtað þess að fá dýrindis koníak sem hann sturtaði síðan út í Kóka-kóla þegar hann fékk það. „Þetta er allt satt,“ segir hann og kímir.

Hildur á reyndar frekari tengingar austur á land en Atlavíkurlagið. Hún er dóttir Ingveldar G. Ólafsdóttur sem var skólastjóri Hússtjórnarskólans á Hallormsstað um það leyti sem lagið fræga kom út. Eiginmaður Ingveldar er Jóhann Hauksson sem þá var svæðisstjóri RÚV á Austurlandi en hann er ættaður úr Hjaltastaðaþinghá.

Atlavík ´84

Hér er ég í góðu flippi
ég er gamall Bítlahippi
Gefinn fyrir konn í kók
Atlavík er algjört djók

Af öllum mínum unaðshelgum
dansandi með sveittum gelgjum
í Atlavík, Í Atlavík.

Hingað mun ég koma aftur
þó hér búi ei nokkur kjaftur
Því æska landsins er í stuði
og ég er gamall fylliraftur

Af öllum mínum unaðshelgum
dansandi með sveittum gelgjum
í Atlavík, Í Atlavík.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.