Góð aðsókn á tónleikaröð Bláu kirkjunnar

„Maður verður alveg var við það þegar verið er að auglýsa viðburðinn og óska eftir áhugasömum flytjendum að þessi tónleikaröð er sannarlega á radarnum hjá hljómlistarfólki,“ segir Jón Knútur Ásmundsson, verkefnastjóri Bláu kirkjunnar.

Tónleikaröð Bláu kirkjunnar á Seyðisfirði er árleg tónlistarveisla sem hefur verið haldin í glæsilegri litfagurri kirkjunni allar götur síðan árið 1998 og á mörgum viðburðum er kirkjan fullsetin.

Alls eru sex tónleikar þetta sumarið og þar af er tveimur þeirra lokið og gengu þeir báðir vel að sögn Jón Knúts en hann er að sjá um verkefnastjórn tónleikaraðarinnar í fyrsta skiptið.

„Fyrst fengum við hina einstöku hljómsveit Brek fyrir viku síðan og í gær var Nordic Viola með flutning. Það var þéttsetið á fyrstu tónleikunum en eitthvað aðeins færri í gær. Framundan eru svo fjórir tónleikar í viðbót og í öllum tilvikum tónlistarfólk hvers tónlist rímar vel við svona notalegt hús eins og kirkjan sannarlega er. Hljómburðurinn innandyra er alltaf jafn stórkostlegur.“

Þann 13. júlí stíga á stokk Austfirðingarnir Jonni og Kristín með órafmagnaða og afslappaða dagskrá. Duo Barazz, sem samanstendur af saxafónleikaranum Dorthe Hojland og Láru Bryndísi Eggertsdóttur organista, tvinna saman barrokk og djass þann 20. júlí. Viku síðar mætir hin enska Katey Brooks sem hefur starfað með mörgum af þekktari tónlistarmönnum heims áður en tríóið Sapiace frá Austurríki setur endapunktinn á tónleikaröðina þetta árið þann 3. ágúst.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.