Orkumálinn 2024

„Gleðin er númer eitt“

„Við ákváðum að taka þetta að okkur í eitt ár til reynslu og sjá hvernig gengi. Skemmst er frá því að segja að þetta hefur gefist mjög vel, mætingin hefur verið mjög góð, allir hjálpast að og eru samtaka um að láta þetta ganga vel,“ segir Hlíf Herbjörnsdóttir, formaður Jaspis, félags eldri borgara á Stöðvarfirði sem haldið hefur  úti öflugri starfsemi í vetur.


Félagið er með aðsetur í húsinu sem áður hýsti leikskólann Balaborg og áður hafði starfsmaður á vegum Fjarðabyggðar séð um starfið. Í haust fór Fjarðabyggð þess á leit við Jaspis að taka við starfinu. Hlíf segir hópinn að jafnaði hittast tvisvar sinnum í viku og mikla samheldni og gleði ríkja innan hans.


Heitur matur á fimmtudögum
Á mánudögum er alltaf boðið upp á stuttan göngutúr og kaffi og kökur á eftir en heitan mat í hádeginu á fimmtudögum. „Það hafa verið að mæta að jafnaði tuttugu manns í matinn og fimmtán í kaffið. Það eru ekki aðeins eldri borgarar sem koma, enda heitir félagið Jaspis, félag eldri borgara og áhugafólks um málefni þess, þannig að allir geta skráð sig í félagið án þess að vera orðnir eldri borgarar.“

„Þetta gefur manni svo mikið“
Auk þessara föstu samverustunda hefur hópurinn gert fjölmargt skemmtilegt saman í vetur. „Í tilefni Daga myrkurs komu eldri borgarar í Breiðdal í heimsókn og buðum við upp á svarta grauta. Einnig komu skólabörn í heimsókn ásamt foreldrum sínum og var því margt um manninn. Við höfum einnig hist og föndrað, útbúið jólakort og skorið út laufabrauð. Við vorum svo með jólahlaðborð í desember.“

Hlíf segir starfið skipta miklu máli fyrir fólkið á staðnum en hópurinn kemur aftur saman eftir helgi til þess að skipuleggja starf vorannarinnar.

„Þetta gefur manni svo mikið, það er svo mikil gleði hjá okkur og gaman. Það skiptir máli að hafa stað til þess að hittast á, eitthvað fast í hendi í vikunni. Sumir koma til þess að vinna handavinnu en aðrir bara til þess að spjalla og njóta þess að hitta annað fólk. Við erum rosalega ánægð með þetta, það er mikil samstaða hjá fólkinu en ef hún væri ekki fyrir hendi myndi þetta ekki ganga upp. Hjá okkur vilja allir hjálpast að við að gera góða hluti og gleðin er númer eitt.“





Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.