Gleði og gaman í sönghóp á Facebook

Seyðfirðingurinn Helgi Haraldsson renndi ekki í grun um hvað í vændum væri þegar hann stofnaði sönghóp á Facebook. Innan við viku eftir stofnun hópsins eru tæplega sex þúsund manns skráð í hópinn.

„Við viljum frekar hafa sönghópinn í veldisvexti heldur en veiruna,“ segir Helgi Haraldsson, bílstjóri á Seyðisfirði og stofnandi Facebook-hópsins „Syngjum í burtu veiruna.“

Í hópnum hefur fólk, hvaðan æva af landinu, deilt myndböndum af sér syngjandi hin ýmsu lög. „Þú gerir það sem þú vilt, tekur upp þitt lag á myndband, hvort sem það er eftir aðra eða frumsamið og sendir inn. Þetta snýst um að syngja, hafa gleði og gaman og skemmta sér og öðrum.“

Helgi stofnaði hópinn síðasta laugardag eftir að hafa tekið þátt í söngáskorunum á Snapchat með þremur öðrum. „Þetta datt í hausinn á mér að stofna hópinn til að áskorunin myndi ekki deyja út, eins og þær gera svo oft á Snapchat.“

Nú, sex dögum síðar, er á fjórða hundrað myndbanda komin í hópinn og tæplega 5.700 meðlimir. „Ég gerði mér ekki grein fyrir að þetta yrði svona mikið,“ segir Helgi.

Myndböndin eru af ýmsum toga. Sumir syngja beint fyrir símann meðan aðrir sækja hljóðfærin og hljóðupptökutækin sem þeir eiga heima. Sjálfur gerði Helgi tónlistarmyndband með því að fara hringinn á Seyðisfirði á fallegum degi í vikunni.

Aðspurður kveðst hann ekki mikill söngvari dags daglega. „Ég get ekki sagt það. Ég syng á Snapchat og tilfallandi tækifærum. Ég er ekki í neinum kór núna þótt ég hafi vissulega verið í kirkjukórnum hérna fyrir löngu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.