Gerði hreindýrapylsu sérstaklega fyrir ferðina austur

Hreindýrapylsa og heiðargæsahamborgari eru á matseðlinum í matarvagni Silla kokks sem verður á Egilsstöðum um helgina. Pylsan er sérstaklega gerð fyrir ferðina austur.

„Fyrst maður er mættur á Héraði þá er það hreindýrapylsa með kakóbaunum. Síðan er það heiðargæsahamborgari með gæsakæfunni minni sem vann gullverðlaun í haust.

Þetta er einfalt og gott. Það skiptir máli í þessum vögnum að flækja hlutina ekki of mikið,“ segir Sigvaldi Jóhannesson matreiðslumaður, betur þekktur sem Silli kokkur.

Eins og sést á matseðli helgarinnar leggur Silli áherslu á villibráð, enda mikill veiðiáhugamaður. „Þetta er splunkunýr matseðill. Ég hef boðið upp á hann síðustu tvo daga á Akureyri. Viðtökurnar þar voru mjög góðar. Einn sagði mér, þegar hann kom í seinna skiptið, að hann hefði fellt tár yfir hamborgaranum.“

Fyrr í sumar vann Silli kokkur til tvenna verðlauna á Götubitahátíð Íslands í sumar, þar á meðal fyrir besta götubitann. „Ég fæ hugmyndir og geri eitthvað sem annað hvort virkar eða ekki. Maður er í endalausri tilraunastarfsemi.“

Þetta er í fyrsta sinn sem hann kemur austur. „Ég lét undan pressu frá mönnum á snappinu. Þetta er ein síðasta helgin þar sem hægt er að fara um landið áður en haustið kemur,“ segir hann.

Vagninn stendur á bílaplaninu við verslun Nettó á Egilsstöðum. Opið verður til klukkan átta í kvöld og 11-20 á morgun. „Svo verð ég með opið í hádeginu á sunnudag, ef ég á eitthvað eftir þá.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.