Gengur um skosku Hálöndin til minningar um systur sína

Inga Geirsdóttir frá Eskifirði leggur af stað á morgun í 154 kílómetra áheitagöngu um systur sína Iðunni, sem lést úr krabbameini fyrir þremur árum. Inga gengur ásamt manni sínum og dóttur vinsælustu gönguleið Skotlands. Hún hefur gengið hana áður en ætlar að fara hraðar yfir en fyrr.

Inga hefur búið ásamt manni sínum, Snorra Guðmundssyni og dóttur þeirra Margrét í Skotlandi síðustu 18 árin og þau reka þar fyrirtækið Skotgöngu, sem skipuleggur ferðir víða um Evrópu.

Eins og hjá mörgum öðrum fyrirtækjum í ferðaþjónustu hefur verið lítið að gera í Covid-faraldrinum en þá kviknaði hugmyndin um að fara í göngu til minningar um Iðunni. Ferðin verður farin til styrktar Göngum saman, sem með áheitagöngum safnar fé til rannsókna á brjóstakrabbameini.

Iðunn, sem bjó á Reyðarfirði, hefði orðið fimmtug á þessu ári. „Hún setti upp hóp í tengslum við Göngum saman á Reyðarfirði og gekk með honum meðan hún gat,“ segir Inga.

En málefnið á alltaf við. „Í nánast hverri ferð er ég með konu sem farið hefur í gegnum meðferð við brjóstakrabbameini og allir þekkja einhvern sem fengið hefur slíka greiningu,“ segir Inga.

Vinsælasta gönguleið Skotlands

Fjölskyldan setti Skotgöngu á stofn árið 2006. Í fyrstu var farið um Skotland en fyrirtækið hefur einnig skipulagt gönguferðir á Spáni, Austurríki, Sviss og Englandi. Þá hefur það séð um fararstjórn fyrir hópa, meðal annars þá sem heimsótt hafa Edinborg eða Glasgow með beinu flugi frá Egilsstöðum. Skotganga hefur ennfremur skipulagt rútuferðir og hyggur á þrjár ferðir á slóðir Auðar djúpúðgu í Skotlandi ár. „Mest fáum við Íslendinga en við vinnum einnig með ferðaskrifstofum í Danmörku og Svíþjóð," segir Inga.

Leiðin sem hún, Snorri og Margrét ætla að ganga um helgina kallast West Highland Way, er 154 km löng og er vanalega farin á sjö dögum í ferðum Skotgöngu en þau ætla að ganga hana á fjórum dögum. Það eru 38,5 km á dag, en til samanburðar má nefna að 36 km eru milli Eskifjarðar og Fáskrúðsfjarðar.

„Þetta er vinsælasta gönguleið Skotlands. Hún var opnuð um 1980 en það hafði tekið 20 ár að gera hana þannig að hægt væri að bjóða upp á hana sem gönguleið. Hún byggir á gömlum hermanna- og kúaslóðum, þessa leið voru kýrnar reknar úr Hálöndunum niður í Lálöndin á markaðina. Þetta er ein af mínum uppáhaldsleiðum, ég hef gengið hana meira en 60 sinnum en aldrei á svona stuttum tíma,“ segir Inga.

„Það er farið frá úthverfi Glasgow og gengið þaðan meðfram fallegasta vatni Skotlands, Loch Lomond upp í Hálöndin yfir heiðina Rannoch Moor, og meðfram Táradalnum, þar sem stór hluti kvikmyndarinnar Braveheart var tekinn upp, upp til Fort William. Á leiðinni eru margir fínir gististaðir eða hægt að tjalda,“ bætir Inga við.

Minningarsteinarnir

Þaðan má fara áfram upp til Inverness, höfuðborgar Hálandanna og þá liggur leiðin meðfram Loch Ness. Þangað er ferðinni ekki heitið að þessu sinni þótt það svæði hafi áhrif á gönguna nú.

„Ég var uppi við Loch Ness fyrir 2-3 árum með hóp Íslendinga þar sem ég gekk fram á fallega málaðan stein. Síðan fann ég fleiri og áður en við vissum að var allur hópurinn farinn að leita að svona steinum á leiðinni. Þar sem Iðunn hefði orðið fimmtug í ár fannst okkur fjölskyldunni við hæfi að mála 50 svona steina og höfum dundað okkur við það síðustu helgar.

Við ætlum að leggja þessa steina niður á leiðinni. Það er steinn með nafni Iðunnar, en líka skreytingum sem tengjast Skotlandi eða öðrum fallegum og líflegum táknum þannig þeir séu áberandi á leiðinni. Við höfum sagt frá þessu og fengum meðal annars skilaboð frá konu sem bað okkur um að gera einn stein með nafni látins sonar hennar. Neðan í þeim eru tilmæli um að taka þá ekki. Svona göngur geta orðið langar og mörgum finnst gaman að leita að þeim á leiðinni.“

Fjölskyldan býr sjálf í smábæ utan við Edinborg. „Við erum orðnir Skotar. Þeir eru dásamlegt fólk, þjóðfélag sem er laust við stress,“ skýtur hún að.

En þetta þýðir að ferðin hefst í kvöld. „Við leggjum af stað til Glasgow seinni partinn. Svo byrjum við gönguna í fyrramálið og göngum fram á sunnudag. Þótt nýbúið sé að aflétta lokunum hér í Bretlandi þá höfum við náð að hreyfa okkur daglega og eigum því að vera tilbúin í gönguna. Veðurspáin er þó ekki frábær, von er á roki og rigningu á morgun, en við erum með allar græjur.“

Upplýsingar um hvernig hægt er að heita á Ingu og fjölskyldu má finna með að smella hér.

Inga og Snorri ásamt Kristínu, systur hennar, á gönguleiðinni sumarið 2018 en það ár lést Iðunn. Mynd: Úr einkasafni

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.