Gengið gegn kynbundnu ofbeldi

Árleg ljósaganga Soroptimistaklúbbs Austurlands verður gengin frá Egilsstaðakirkju á morgun, föstudag. Gangan markar upphaf 16 daga átaki Soroptimista gegn kynbundnu ofbeldi.

Lagt verður af stað frá Egilsstaðakirkju klukkan 17:00 og gengið að Valaskjálf. Þar verður boðið upp á veitingar og flutt stutt erindi frá viðbragðsaðilum, félagsþjónustu auk þess sem þolandi ofbeldis talar.

Alþjóðlegt átak Sorpotimista er hérlends þekkt undir merkinu „Roðagyllum heiminn“ og er slagorð íslenskra Soroptimista í því nú „Soroptimistar hafna ofbeldi“. Einkennisliturinn appelsínugulur á að tákna bjartari framtíð.

Það er hluti af alþjóðlegu átaki Sameinuðu þjóðanna sem hin ýmsu félagasamtök taka þátt í. Það stendur til 10. desember.

Markmið átaksins að þessu sinni er að beina athyglinni að forvörnum og fræðslu og hafa Soroptimistar útbúið fræðsluefni um hinar ýmsu myndir ofbeldis sem flokka má í sex flokka: andlegt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, fjárhagslegt ofbeldi, stafrænt ofbeldi og eltihrellir. Ekki er alltaf auðvelt að átta sig á því að um ofbeldi sé að ræða í samböndum fólks en það getur átt sér stað óháð kyni, aldri og kynhneigð.

Samkvæmt rannsóknum hafa 15% til 20% íslenskra kvenna og 5% til 10% íslenskra karla verið beitt ofbeldi af maka sínum eða þeim sem þau voru í ástarsambandi við og líklega búa um 2% íslenskra kvenna við ofbeldi hverju sinni.

Íslenskir Soroptimistar, sem eru nú um 600 í 19 klúbbum, hvetja alla til að kynna sér málefnið, fræðast og leggja sitt af mörkum til að stöðva ofbeldi. Soroptimistasystur munu þessa 16 daga vekja athygli meðal annars með því að klæðast roðagylltum fatnaði, selja ýmsan varning, birta greinar og fræðsluefni. Roðagyllti liturinn verður áberandi á byggingum víða um land og einnig á sendiráðum Íslands víða um heim.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.