Gefa öllum túrandi ungmennum Austurlands tíðavörur

Ungmennaráð Múlaþings hefur gefið öllum ungmennum í 9. – 10. bekk, sem fara á túr, fjölnota tíðavörur.

„Þetta hófst allt með umræðum ungmennaráðs Fljótsdalshéraðs á sínum tíma um umhverfismál og aðgengi að tíðavörum,“ segir Einar Freyr Guðmundsson, formaður ráðsins.

Undanfarin tvö ár hafa tíðavörur verið aðgengilegar frítt í skólum og félagsmiðstöðvum Fljótsdalshéraðs en hefur nú verið tryggt sömuleiðis í Múlaþingi. Gallinn er að flestar tíðavörur eru einnota og með hag umhverfisins í huga fór ungmennaráðið að skoða aðra kosti.

Markmiðið var því tvíþætt, annars vegar að auðvelda aðgengi að umhverfisvænni kostum, hins vegar að spara ungmennum mikinn kostnað sem verður með tíð og tíma með kaupum á einnota tíðavörum. „Okkur fannst þetta löngu tímabært verkefni,“ segir Einar.

Ferlið við að skoða úrvalið, afla fjár, panta og fá afhent hefur tekið nokkurn tíma en í gær var loks lokið við að afhenda gjöfina. Alls fengu 150 ungmenni gjöf með þremur mismunandi tíðavörum: túrbrók, þremur fjölnota dömubindum og tíðabikar.

„Við rákum okkur á að fjölnotavörurnar voru dálítið dýrar. Settið kostar 13.000 krónur,“ útskýrir Einar Freyr en heildarverðmætið er tæpar tvær milljónir króna. Ungmennaráðið fékk því styrk frá Alcoa Fjarðaáli í verkefnið en vörurnar koma frá versluninni Vistveru sem er samstarfsaðili.

Ágóði verkefnisins teygir sig út fyrir Austurland því fyrir hvern seldan tíðabikar gefur framleiðandi þeirra annan til einstaklings í neyð. „Þannig látum við gott af okkur leiða,“ segir Einar Freyr að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.