Orkumálinn 2024

Geðlestin á leið til Austurlands

Á morgun, föstudaginn 5. nóvember, mun Geðlestin heimsækja unglingadeildir á Egilsstöðum. Reyðarfirði og í Neskaupstað og einnig Menntaskólann á Egilsstöðum og Verkmenntaskóla Austurlands.

Geðlestin er geðfræðsla fyrir nemendur í efri bekkjum grunnskóla landsins og framhaldsskólanema. Geðlestin er samstarfsverkefni Geðhjálpar og Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og stefnt er að því að heimsækja alla skóla landsins í vetur svo von er á Geðlestinni aftur á Austurland síðar.


Markmið verkefnisins er fyrst og fremst að ræða við ungt fólk um geðheilsu og er hver heimsókn með þeim hætti að fyrst er horft á myndband, þá segir ungur einstaklingur frá persónulegri reynslu sinni af geðrænum áskorunum og eftir það verða umræður og loks tónlistaratriði.


„Nemendur eru hvattir til þess að tjá tilfinningar sínar, spyrja spurninga og ræða við foreldra/aðstandendur eða kennara um það sem gengur á í amstri dagsins. Á lífsleiðinni er mjög líklegt að við lendum í mótvindi og þurfum jafnvel að leita okkur aðstoðar. Öflug geðrækt frá unga aldri út lífið er besta ráðið til að takast á við þær áskoranir sem lífið færir okkur. Það er mikilvægt að læra að stundum er lífið leiðinlegt og erfitt en að það þurfi ekki alltaf að þýða eitthvað alvarlegt eða slæmt. Mótvindur verður skyndilega meðvindur og engin brekka er endalaus […] Fræðsla eins og þessi þar sem einstaklingur segir frá lífsreynslu sinni getur kallað fram viðbrögð hjá þeim sem hlusta og því er mikilvægt að forráðamenn séu meðvitaðir og ræði við börn sín að fræðslunni lokinni. Það er einnig mikilvægt að kennarar og aðrir starfsmenn skóla fylgist með viðbrögðum nemenda í kjölfarið,“ segir í fréttatilkynningu verkefnisins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.