Gangandi kengúra, dýr og lestarvagnar

Jón Ragnar Helgason, sjómaður til þrjátíu ára á Vopnafirði, hefur hafið framleiðslu á vistvænum tréleikföngum. Þrátt fyrir að vera ekki smiður þá fellur eplið sjaldan langt frá eikinni en faðir hans og afi voru báðir smiðir. Handverkið er því í blóðinu.

„Upphaflega byrjaði þetta síðasta sumar þegar við hjónin eignuðumst okkar fyrsta barnabarn. Þá datt okkur í hug að ég myndi kannski gera púsl eða eitthvað þess háttar. Ég fór þá að finna teikningar og hófst svo handa en bætti við og breytti eftir því sem mér fannst henta,“ segir Jón Ragnar.

Leikföng fyrir þau yngstu

Nýverið kviknaði svo áhugi hjá honum að gera meira. Þá fór hann skoða hvaða efni hann ætti og hvað hann gæti gert. „Fyrir utan allskyns dýrapúsl þá smíðaði ég bíl og nú síðast kengúru sem gengur sjálf. Öll leikföngin eru gerð úr frekar þykku efni sem auðvelt er fyrir litlar hendur að ná tökum á. Ég nota bara það efni sem ég á til. En ég hef líka heyrt í Brúnás og fleirum upp á að geta mögulega fengið efni sem fellur til hjá þeim.“

Óskir frá konunni

Upphaflega voru það óskir frá konunni sem drifu Jón Ragnar út á verkstæði. Þá sagaði hann út platta sem eru í laginu eins og Ísland og svo fugla til hengja upp í glugga.  „Svo langaði mig í svona gamaldags jólatré úr timbri. Stofninn og greinarnar prik með áföstum kertahöldurum á endaum. Ég smíðaði svoleiðis og setti mynd á Facebook.“ Þetta endaði með hálfgerðri fjöldaframleiðslu en Jón Ragnar búinn að búa til og selja tæplega 50 stykki af jólatrjánum.

Bara byrjunin

„Ég er bara rétt nýbyrjaður á leikföngunum en viðbrögðin hafa verið mjög góð. Ég er búinn selja tíu til fimmtán stykki. Þetta er byrjað að spyrjast út sem er mjög ánægjulegt. Gaman að þetta gleðji og fólki finnist þetta flott. Yfirleitt er fín sala fyrst eftir að ég set myndir á netið en svo hægist á. Fólk er samt duglegt að hafa samband þegar það vantar eitthvað og stundum á ég eitthvað til á lager en annars smíða ég það,” segir hann.

Hann segir að næst á döfinni hjá sér séu lestarvagnar sem hann er að hanna og ætlar svo smíða. Nú verður ekki aftur snúið fyrst þetta hefur birst hér og það verður gaman að fylgjast með hvað honum dettur í hug að smíða næst.

Mynd: Jón Ragnar Helgason


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.