Gáfu vetnisskurðartæki til minningar um Stefán Má

Orkuboltarnir í Neskaupstað, félagsskapur um orkusparandi tækni, gáfu Verkmenntaskóla Austurlands vetnisskurðartæki til minningar um Stefán Má Guðmundsson, kennara við skólann og félaga í Orkuboltunum, sem varð bráðkvaddur fyrr á árinu.

Tækið var afhent á Tæknidegi fjölskyldunnar sem haldinn var í skólanum síðasta laugardag.

Það er mest notað í málmiðnaði til að skera járn en gagnast einnig til kennslu í efnafræði og rafiðnaði, þá rafgreiningu.

Vetnið klýfur vatn í súrefni og vetni með rafgreiningu. Vetnið nýtist síðan í skurðinn. „Það er umhverfisvænt og það er minni slysahætta af því út af tilfærslu kúta eða sprengingum,“ sagði Hjálmar Jóhannesson, einn orkuboltanna.

Hann sagði tækið gefið til að færa Verkmenntaskólann í fremstu röð. Þetta er annað tækið sem kemur til landsins en Alcoa Fjarðaál fékk það fyrsta. Tækin komu þó í sömu sendingu. Fjarðaál og SÚn styrktu kaupin.

En fyrst og fremst er tækið gefið til minningar um Stefán Má. „Hann var góður félagi sem hafði ómældan áhuga á orkusparandi tækjum svo sem varmadælum, sólarsellum, vindorku og vetnistækni. Við vonum að tækið reynist vel og ykkur verði hugsað til ykkar gamla kennara.“

Elvar Jónsson, skólameistari, sagði tækið góða viðbót við tækjakost skólans. Það væri vegleg gjöf, gefin til minningar um góðan dreng.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar