Orkumálinn 2024

Gáfu Norðfjarðarkirkju altarisklæði

Sr. Sigurður Rúnar Ragnarsson, sóknarprestur í Norðfjarðarkirkju til tuttugu ára, og fjölskylda hans gáfu kirkjunni nýtt altarisklæði þegar hann kvaddi söfnuð sinn formlega í vor.

Sigurður segir klæðið gefið til minningar um ömmur hans og móður sem hafi stutt vel við kirkjuna. „Þær voru einlægar kirkjukonur og velunnarar í kirkjustarfinu með ýmsu móti.

Þá sunnudaga sem ekki var messað hér var hlustað á útvarpsmessuna á heimilum afa og ömmu. Presturinn var líka oft heimagangur hjá þeim. Sr. Páll og Kristrún amma mín voru einstakir vinir og náðu vel saman,“ rifjar Sigurður upp.

Klæðið, sem er grænt að meginlit, með táknum sem eru Alfa og Omega í krossi, segir Sigurður vera til að fylla upp með búnaði kirkjunnar. Til hafi verið pör af höklum og altarisklæðum nema að með einum grænum hökli hafi ekki verið samsvarandi altarisklæði. Úr því hafi nú verið bætt. „Græni liturinn er ætlaður fyrir sunnudaga eftir þrettándann og fram að föstu með þessum viðhafnarbúnaði fyrir kirkjuna mína,“ útskýrir hann.

Fyrir í kirkjunni var þó til grænn hökull og altarisklæði í stíl. Táknin þar hökli og altarisklæði eru skúta með kross í mastri. Þau voru gefin af Sjómannadagsráði á Norðfirði til minningar um föður Sigurðar sem var þar lengi hafnarstjóri og formaður sjómannadagsráðs Neskaupstaðar um árabil.

Það sett prýðir altarið og prestinn alla jafna á sjómannadag og er notað í hátíðarmessu á sjómannadaginn og fram að aðventu. „Það var mér sértök tilfinning í minni fyrstu messu á Norðfirði, á sjómanndaginn 1999, að vera í þessum minningarhökli um Ragnar föður minn.

Svipuð tilfinninga gagntók mig er ég gekk í fyrsta sinn inn í kirkjugarðinn á Skorrastað, í minni sókn. Forfaðir minn í fimmta lið, sr. Hinrik Hinriksson, þjónaði þar. Það má því segja með sanni að sagan endurtaki sig með ýmsum hætti!“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.