Gáfu Egilsstaðakirkju handunna stólu

Vinkonurnar Guðlaug Ólafsdóttir og Sigríður Ingimarsdóttir tóku sig til og gáfu Egilsstaðakirkju stólu. Hún er svört og gyllt að lit og er handunnin af þeim.
Fram kemur í fréttakynningu frá kirkjunni að stólan er í svörtum útfararlit en með gylltum krossum sem minna á von trúarinnar. Hingað til hefur Egilsstaðakirkja ekki átt svarta stólu.

Stóla er borðinn sem presturinn ber yfir herðar sér við kirkjulegar athafnir. Utan yfir hvítu ölbuna eða rykkilínið. Litur hennar er mismundi og fer eftir tilefni og tíma kirkjuársins.

„Listin og trúin heyra jú gjarnan saman og handunninn skrúði fyrir helgiathafnir er dæmi um þá listsköpun, sem lögð hefur verið stund á innan kristinnar kirkju í gegnum aldirnar,“ segir Þorgeir Arason sóknarprestur Egilsstaðaprestakalls

„Það hefur dýpra gildi fyrir kirkjuna að fá svona gjafir. Þetta er listmunur er sem handunninn af fólki hér í kirkjunni. Það er ekkert á hverjum á degi sem svona er gert. Yfirleitt notum við stólur sem eru pantaðar að utan,“ segir hann.

Þær Guðlaug og Sigríður skiptu með sér verkum þannig að Guðlaug heklaði allt sem svart er í stólunni en Sigríður sá um krossana sem eru gylltir.

„Þetta er dálítið verk en ekkert of flókið fyrir okkur sem eru duglegar að vinna í höndunum,“ segir Guðlaug. „Það fór talsverður tími í undirbúning. Því við þurftum að skoða ýmsa möguleika. Efnið skiptir máli. Það má til dæmis ekki renna og verður að bera sig vel,“ útskýrir hún.

Hún segir að þetta hafi mikla þýðingu því kirkjur landsins eru fjársveltar og hafa oft ekki efni á því viðhaldi sem þarf að sinna eða að kaupa svona hluti. Sem geta verið dýrir.

Þorgeir tekur undir þetta. „Við erum ofboðslega þakklát fyrir þessa vönduðu gjöf og þann góða hug sem hún birtir,“ segir hann.

„Svo langar mig að minna á lokaátakið í söfnun fyrir orgelhreinsun kirkjunnar og þakka öllum þeim fjölmörgu sem styrkt hafa þá söfnun, “ segir hann að lokum.

En reikningur orgelsjóðs Egilsstaðakirkju er 0175-15-020004, kt. 690777-0299.


Stólan sem þær Guðlaug og Sigríður hekluðu. Myndin er aðsend.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.