Gaf vel til viskíveiða

Það var heldur óvanalegur fengurinn sem Hreinn Elí Davíðsson náði að landi þar sem hann var að dorga við eina af bryggjunum á Seyðisfirði. Á enda línunnar var óátekin viskíflaska sem greinilega hafði verið lengi í sjó.

„Mér fannst fyrst eins og ég hefði fest línuna í einhverju en síðan prófaði ég að draga inn og náði því þó það væri svolítið þungt. Þannig að ég lét vin minn fá stöngina og dró línuna inn með höndunum þangað til flaskan kom upp úr,“ segir Hreinn en hann var við annan mann að dorga á bryggju nærri olíutönkunum á Seyðisfirði.

Flaskan er alveg heil og óátekin og í henni er korktappi, innsiglaður með vaxi. Hún var mikið til þakin hrúðurkörlum þegar hún kom úr sjó en Hreinn hreinsaði af henni til að geta lesið það sem stendur á flöskunni.

 

 

whiskey sfk 2

Skoskur einmöltungur

Viskíið er af skoskt, af gerðinni Glengoyne, en brugghúsið, sem er staðsett nærri Glasgow, hefur verið starfrækt allt frá árinu 1833.

Að sögn Hreins er erfitt að átta sig á því hversu gömul flaskan er í raun því hönnunin á flöskunum breyttist ekki mikið um langt árabil. Hann þiggur þó allar upplýsingar um mögulegan aldur fegins hendi.

Það er sömuleiðis erfitt að átta sig á því hvort innihaldið hafi spillst af verunni í sjónum. Hreinn ætlar ekki að láta á það reyna. „Hún fer bara upp í hillu,“ segir hann, sáttur með fenginn.

Að minnsta kosti má gera því skóna að hann sé sáttari en hann var, sá sem missti hana í sjóinn fyrir ótöldum árafjölda síðan.

 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.