„Gæti orðið með allra bestu Bræðslunum hingað til“

„Miðasalan ætti að hefjast strax í næstu viku og miðað við tónlistarfólkið sem fram kemur grunar mig að þeir miðar verði fljótir að fara,“ segir Magni Ásgeirsson, tónlistarmaður og forsprakki Bræðslunnar á Borgarfirði eystra.

Hátíðin, ein sú allra vinsælasta á Austurlandi, fer fram sem endranær í júlí og segir Magni að nánast allt sé orðið klappað og klárt fyrir viðburðinn. Búið sé að mestu að gera samninga við fimm mismunandi aðila sem stíga munu á stokk þetta árið en þeir eru allir innlendir aðilar og sumir þeirra góðkunningjar frá fyrri árum hátíðarinnar.

Magni vill þó ekki opinbera nákvæmlega hvaða tónlistarmenn um er að ræða því enn vanti punkt og punkt í einn og einn samning en segir að það sé dagaspursmál hvenær það verði auglýst.

„Þetta eru allt innlendir aðilar að þessu sinni. Það er svo mikið af frábæru tónlistarfólki hér heima að það er engin þörf að leita neitt út fyrir landsteinanna. Ýmsir þeirra hafa þó komið fram hér áður og langaði að koma aftur og ég ekki í vafa um að þeir falla vel í kramið. Þetta gæti meira að segja orðið með allra bestu Bræðslum hingað til þó ég segi sjálfur frá.“

Mynd: Ef marka má forsprakka Bræðslunnar verður margt um manninn á Borgarfirði eystra þann 23. júlí næstkomandi.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.