Fyrstu viðbrögð við REKO vonum framar

Fyrsta vöruafhendingin undir merkjum REKO á Austurlandi var á Egilsstöðum síðasta laugardag. Framleiðendur eru bjartsýnir á framhaldið eftir frábærar viðtökur.

„Viðtökurnar eru vonum framar. Ég get sagt fyrir sjálfa mig að ég átti ekki von á svona miklum viðbrögðum. Ég vona að þetta sé komið til að vera,“ segir Guðný Harðardóttir, bóndi á Gilsárstekk í Breiðdal og einn stjórnenda REKO Austurlands.

REKO gengur út á að nýta Facebook til að tengja kaupendur við bændur og smáframleiðendur. Söluaðilar auglýsa í hópi hvaða vörur þeir hafa á boðstólunum í hvert skipti og áhugasamir leggja í pantanir.

Fyrirfram er ákveðinn afhendingardagur, sem að þessu sinni var í anddyri verslunarmiðstöðvarinnar Níunnar. Kaupendur eru þá búnir að greiða fyrir vöruna og koma aðeins til að sækja hana.

Að þessu sinni tóku þátt níu framleiðendur á svæðinu frá Vopnafirði til Hornafjarðar með fjölbreytta vöru, svo sem geitakjöt, kartöflur, bakkelsi og skyr.

„Kosturinn við þetta fyrirkomulag er að viðskiptavinurinn sér framleiðandann. Ég held að það sé alltaf meiri krafa um að vita hver uppruni vörunnar er,“ segir Guðný.

Þótt afhendingin hafi verið á Egilsstöðum nýttu kaupendur sér það ef þeir vissu af ferð á staðinn og til dæmis tók Guðný vörur heim fyrir nágranna sína. Þegar hafa verið ákveðnar fleiri afhendingar eftir góðan dag.

„Við vildum sjá hvernig viðbrögðin yrðu á Egilsstöðum fyrst. Svo förum við á fleiri staði. Við erum hvergi bangin eftir svona viðtökur,“ segir Guðný.

Næstu afhendingar REKO Austurlands:

Laugardagur 23. febrúar
Í Litlu sveitabúðinni, Nesjum kl. 12:00-13:00
Við Voginn, Djúpavogi kl. 15:00-15:30

Laugardagur 16. Mars
Fyrir framan Hús handanna, Egilsstöðum kl. 12:00-13:00
Fyrir framan Krónuna í verslunarmiðstöðinni Molanum, Reyðarfirði kl. 14:00-15:00

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar