Fyrsta sólóplatan handan við hornið

Borgfirðingurinn Aldís Fjóla Ásgeirsdóttir Borgfjörð er þessa dagana að leggja lokahönd á sína fyrstu sólóplötu sem kemur út í sumar, en upptökum á henni lauk í síðustu viku. Aldís Fjóla segir langþráðan draum rætast með plötunni.

Platan, sem fengið hefur titilinn Shadows, hefur verið nokkurn tíma í vinnslu en fyrsta lagið á henni kom út á Spotify fyrir þremur árum.

„Það heitir The End sem er frábært heiti á fyrsta lagi. Ég á erfitt með að bíða þegar lögin eru orðin tilbúin, ég vil leyfa öllum að heyra þau.

Það getur verið ógnvekjandi að leyfa fólki að heyra lögin en þetta hefur verið ótrúlega skemmtilegt ferli og gaman að sjá hvernig lögin hafa þróast,“ segir Aldís Fjóla.

Plötuna hefur Aldís Fjóla unnið með Stefáni Erni Gunnlaugssyni sem hefur stjórnað upptökum og útsett lögin auk þess að semja þau á móts við Aldísi, sem á þó alla textana sjálf.

„Við Stefán Örn spiluðum einu sinni saman með Emilíönu Torrini á Drangey festival og í aðdraganda þess eyddum við nokkrum tímum saman á æfingum. Ég hafði þó fylgst með honum því hann hafði unnið með nokkrum af mínum uppáhaldstónlistarmönnum, svo sem Svavari Knúti og Jónasi Sig og fannst góður hljómur í öllu því sem hann var með fingurna í.

Í hetjukasti ákvað ég að senda honum tvö lög sem ég hafði samið. Ég skrifaði í tölvupóstinn hvað mér þætti hann frábær og bað hann um að líta á lögin. Ég lokaði augunum og ýtti á Send.

Ég fékk svar frá honum daginn eftir um að hann væri til í að vinna með mér. Ég hef sjaldan hoppað jafn hátt af ánægju. Síðan hafa orðið töfrar í hljóðverinu hans.“

Spennt að heyra heildina

Platan mun innihalda tíu lög og eru sjö þeirra komin út á Spotify. Upptökum á plötunni lauk í byrjun síðustu viku. „Það var léttir að ná síðustu söngupptökunni en um leið skrýtið. Stefán byrjaði að tala um það um daginn að platan væri að verða tilbúinn og ég fékk smá skrekk. Að gefa út plötu hefur lengi verið draumur minn og allt í einu er hún að verða tilbúin.

Tilfinningarnar eru því blendnar. Ég er bæði hrædd en líka spennt eftir að heyra heildina. Þó aðallega spennt eftir að haga lagt blóð, svita og tár í lögin auk þess að henda hjartanu út í textana.“

Í þessum mánuði verður lokið við að hljóðblanda og tónjafna plötuna en stefnt er að því að senda upptökurnar út til Þýskalands þar sem þær verða pressaðar út í vínilplötur. Framgangur þess verkefnis ræðst á söfnun á Karolina Fund sem lýkur á morgun. „Mig hefur alltaf dreymt um að gefa út vínilplötu, það er eitthvað við að geta haldið á minni eigin plötu.“

Von er á plötunni í byrjun sumars ef allt gengur að óskum. Hún verður einnig aðgengileg á Spotify. Þá mun Aldís Fjóla fagna útkomu plötunnar með útgáfutónleikum, fyrst í Fjarðaborg á Borgarfirði 26. júní og síðan í Reykjavík 18. september, að því gefnu að búið verði að leyfa fjöldasamkomur á ný.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.