Fyrsta Ormsteitið í þrjú ár framundan

„Við byrjum þetta árið með Mugison á Tehúsinu á föstudaginn kemur og svo taka BlazRoca, Blaffi og DJ Nicotina Turner smá blástur á Aski Taproom síðar það kvöld,“ segir Halldór B. Warén, skipuleggjandi fyrsta Ormsteitisins um þriggja ára skeið.

Ormsteitið er, fyrir ókunnuga, uppskeru- og menningarhátíð Héraðsbúa, en ekkert hefur orðið af þeirri hátíðinni frá árinu 2019 sökum faraldurs eins sem flestir lifandi menn ættu að kannast við. Að þessu sinni er Fljótsdalur einnig hluti af pakkanum en þessa fyrstu helgi af tveimur á Ormsteitinu er megináherslan á Réttardaginn þeirra sem Austurfrétt gerði skil fyrr í dag.

Sem fyrr er fjöldi viðburða í boði fyrir áhugasama flesta daga frá og með föstudeginum og Halldór segir að enn geti bæst við skipulagða dagskrá en hana má lesa í heild sinni á vef hátíðarinnar: Ormsteiti.is og á fésbókarsíðu með sama nafni.

„Það er í sjálfu sér ekkert brugðið út af venjunni þetta árið,“ segir Halldór. „Það verða markaðsdagar, sundbíó, strætóstuð og súpukvöld eins og áður hefur verið og auðvitað klettasöngurinnNýr organisti Egilsstaðakirkju ætlar að taka þátt í messu á sunnudaginn kemur og kórinn mun syngja í framhaldinu. Þá er markvert að Dúkkulísurnar okkar ætla að halda tónleika í Vök. Hugmyndin er að þær komi fram utandyra en það mun aðeins fara eftir veðri hvort það gengur eftir. Annars verða þær innandyra á staðnum.“

Halldór hefur engar áhyggjur af því að halda slíka bæjarhátíð síðla í september þegar velflestum slíkum hátíðum er löngu lokið.

„Þvert á móti eiginlega. Grunnurinn að þessari hátíð var alltaf Októberfest eða svona uppskerulok og þess utan er september núna eins og júlí fyrir 20 árum svo það er enginn mínus í mínum huga.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.