Orkumálinn 2024

Frumflutningur tónverka eftir Austfirðinga

Dagskrá helgarinnar ber með sér að menningin sé að lifna við eftir samkomutakmarkanir. Fyrstu viðburðir ársins verða á Skriðuklaustri og tónleikar í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði.

Austfirskt tónlistarfólk heldur kammertónleika á Skriðuklaustri á morgun undir yfirskriftinni „Komin til að vera nóttin“. Þar verður frumflutt nýtt verk eftir Friðrik Margrétar- Guðmundsson við ljóð Ingunnar Snædal, sem var sérstaklega samið fyrir hópinn.

Einnig verða frumfluttar útsetningar eftir Svan Vilbergsson af völdum sönglögum Tryggva M. Baldvinsson við ljóð Þórarins Eldjárn. Mela-hópinn skipa að þessu sinni: Berta Dröfn Ómarsdóttir sópran, Berglind Halldórsdóttir klarinett, Gillian Hayworth óbó, Hildur Þórðardóttir þverflauta, Sóley Þrastardóttir þverflauta og Svanur Vilbergsson gítar.

Á sunnudag munu Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Jón Kalman Stefánsson lesa úr nýjustu verkum sínum og spjalla um þau. Sigríður sendi á síðasta ári frá sér skáldsöguna „Eldarnir. Ástin og aðrar hamfarir“ sem hefur fengið sérstaka athygli síðustu vikur vegna umbrota á Reykjanesskaga. „Fjarvera þín er myrkur“ eftir Jón Kalman vakti einnig verðskuldaða athygli í jólabókaflóðinu í fyrra.

Á Eskifirði á sunnudagskvöld munu tenórsöngvarinn Gissur Páll Gissurarson og píanóleikarinn Árni Heiðar Karlsson flytja bland af íslenskum og ítölskum sönglögum frá ýmsum tímum ásamt spjalli um sögu og uppruna þeirra.

Það verður farið inn í Kaldalón og kíkt inn í Hamraborgina, heitar tilfinningar ítalskra vonbiðla verða krufnar í vorinu á Ítalíu á meðan að í Draumalandinu drekkja piparsveinar sorgum sínum við dauðans dyr.

Samstarf þeirra félaga spannar á annan áratug en á síðasta ári gáfu þeir frá sér plötuna Við nyrstu voga með íslenskum sönglögum og er önnur plata væntanleg á árinu með ítölskum lögum en gestir munu fá að heyra valin lög af væntanlegri plötu á þessum tónleikum sem spanna allan tilfinningaskalann.

Þá verður páska pop-up markaður við Hús handanna á Egilsstöðum um helgina með fjölbreyttum seljendum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.