Framtíðarráðgjafi á veturna og vörubílstjóri á sumrin

Vöruhönnuðurinn Helga Jósepsdóttir frá Eskifirði hefur að undanförnu starfað sem framtíðarráðgjafi við IED háskólann í Madrid á Spáni. Á sumrin skiptir hún hins vegar alveg um gír og keyrir trukka hjá Malbikun Akureyrar.


Helga er menntaður vöruhönnuður frá Listaháskóla Íslands og háskólanum IED á Spáni, auk þess að vera með meirapróf. Hún flutti fyrst til Spánar árið 2007 og hefur meira og minna búið þar síðan með viðkomu í Frakklandi, Íslandi og Danmörku þar sem hún vann hjá Space 10 sem er „The Future Living Lab” IKEA og leitar leiða til að bæta daglegt líf og venjur almennings í framtíðinni.

„Frá því ég var 15 ára gömul var ég alltaf með einhverja þráhyggju fyrir því að ég þyrfti nauðsynlega að læra spænsku, ég hef ekki hugmynd um af hverju. Þegar ég var svo búin að vinna í nógu mörg ár sem vörubílstjóri og átti orðið pening til þess að fara til útlanda í skóla ákvað ég bara að gera hvort tveggja. Ég flutti til Madrídar til að læra hönnun og það í spænskum háskóla, án þess að kunna orð í tungumálinu,“ segir Helga.

Aðspurð um vörubílaáhugann sem á undan kom segir Helga: „Pabbi átti vörubílafyrirtæki þegar ég var krakki og ætli bílaáhuginn hafi ekki bara verið smitandi. Í það minnsta þótti mér þetta geðveikt spennandi og fékk meira að segja undanþágu til að taka meiraprófið ári áður en ég var orðin alveg nógu gömul til þess,“ segir Helga sem svo vann við keyrslu um fimm ára skeið áður en hún flutti til Spánar.

„Það þarf að mennta komandi kynslóðir með öðrum hætti“
Undanfarið eitt og hálft ár hefur Helga starfað sem framtíðarráðgjafi í IED í Madrid, sínum gamla háskóla. „Mér finnst alltaf svolítið erfitt að útskýra hvað ég er að gera en svona í einföldu máli má segja að ég vinni við að gera heiminn betri á ýmsan hátt. Síðasta árið hef ég verið að finna upp nýjar aðferðir fyrir menntun framtíðarinnar og hvernig hún eigi að virka því krakkar sem eru í grunnskóla í dag munu ekki vinna við það sama og við. Þau störf munu vélmenni leysa af hólmi í framtíðinni. Það þarf að mennta komandi kynslóðir með öðrum hætti til þess að þær verði undir það búnar að taka við heiminum sem alltaf er að breytast. Menntunaraðferðirnar þurfa að vera meira skapandi og miða að því að fólk læri að leita sér lausna sjálft í ríkari mæli.

Þetta eru mjög spennandi pælingar því það býr enginn yfir vitneskjunni. Við setjum fólk saman í hópa til þess að vinna að verkefnum þannig að allir læra. Það er ekki einhver einn kennari, heldur hafa allir eitthvað til málanna að leggja og skapa saman nýja þekkingu,“ segir Helga sem þó skiptir um starf eftir sumarið á Íslandi.

Framtíðarráðgjafi hjá Fast Forward
Mér var boðin mjög spennandi vinna hjá stóru fyrirtæki í Madrid sem heitir Fast Forward. Þar verð ég framtíðarráðgjafi fyrir stór fyrirtæki og ríkisstjórnir. Fyrirtækið hefur til þessa mest unnið með ríkisstjórnum í arabísku furstadæmunum. Þær eru með um fimmtíu deildir sem til dæmis snúa að heilsu, samgöngum, túrisma eða menntun. Verkefnið okkar er að hjálpa þeim að verða frumkvöðlar á öllum sviðum í heiminum en kröfur þeirra eru að vera númer eitt á öllum heimslistum,“ segir Helga. Verkefni haustsins verða augljóslega ærin.

„Það eru mikil forréttindi að fá tækifæri til þess að gefa heilanum frí“
En hvers vegna malbikun á Íslandi á sumrin? „Eftir að ég lærði vöruhönnun hef ég nánast eingöngu unnið við kennslu, stjórnun og ráðgjöf tengt hönnun og dýft mér algerlega í þessar pælingar, hvernig framtíðin geti orðið betri fyrir alla. Það getur verið mjög andlega krefjandi að vinna við það að hugsa og pæla allan daginn. Auk þess fer stór hluti tímans í að sannfæra aðra um að leyfa framkvæmdir á þínum hugmyndum sem oft á tíðum eru frekar klikkaðar. Maður er alltaf að reyna að sanna ágæti þeirra, koma þeim í gegn og yfirleitt kosta þær mikla peninga.

Mér var svo boðin vinna hjá Malbikun Akureyrar í fyrrasuma, en þá vantaði bara vörubílstjóra í tíu daga, eða eitt úthald. Ég tók stökkið og komst þá að því að þetta væri bara besta frí sem ég hefði átt í mörg ár. Það er svo gott fyrir heilann að vera ekki að hugsa um vinnuna eða öll vandamál heimsins. Mitt hlutverk er bara að keyra, bakka og sturta og það kemst ekkert annað að. Ég ákvað því að skella mér bara aftur í ár af því þetta var svo endurnærandi í fyrra. Það eru mikil forréttindi að fá tækifæri til þess að gefa heilanum frí og rúnta um Ísland í leiðinni.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.