„Framsæknari, fjölbreyttari og frábærari en nokkru sinni“

„Ég ákvað þegar ég vaknaði í morgun að fimmtudagurinn 8. mars væri fullkominn dagur til að dúndra miðasölunni í gang,“ segir Ólafur Björnsson, framkvæmdastjóri Hammondhátíðarinnar á Djúpavogi, en miðasalan hefst á Tix.is í fyrramálið.


Hammondhátíðin er alltaf sett á sumardaginn fyrsta, sem að þessu sinni er 19. apríl, en hátíðin stendur frá fimmtudegi fram á sunnudag ár hvert.

„Við orðuðum þetta einhvernvegin þannig í auglýsingunni, að hátíðin í ár væri framsæknari, fjölbreyttari og frábærari en nokkru sinni fyrr, en frábærari er orð sem mér finnst við í alveg mega nota í þetta skiptið,“ segir Ólafur.

Ólafur segir hátíðina í ár vera töluvert framsæknari en oft áður. „Fjölbreytnin er svo sannarlega til staðar eins og verið hefur og hún er sennilega meiri en nokkurn tímann áður. Við munum sjá framsæknari bönd, á borð við Mammút, Árstíðir og Sólstafi, auk þess sem við munum bjóða upp á snillingana í Úlfur Úlfur, en eftir gríðarlega vel heppnaða tónleika Emmsjé Gauta í fyrra fannst okkur ekki annað hægt en að bjóða upp á annað atriði úr íslensku rappsenunni í ár. Þá erum við loksins að fá Moses Hightower í heimsókn en þeir eru búnir að vera á óskalistanum hjá okkur mjög lengi.“

Salka Sól aftur heim
Ólafur segist sjaldan hafa verið eins spenntur og í ár. „Þetta eru ótrúlega flott og vönduð bönd öll sem eitt. Svo erum við að fá Sölku Sól aftur heim, en hún eyddi svo mörgum sumrum á Djúpavogi þegar hún var yngri. Hún spilaði hjá okkur með Amabadama árið 2015, en þá hafði hún ekki komið hingað mjög lengi og það hafði mikil áhrif á hana að koma aftur. Síðan þá hefur mig langað að bjóða henni aftur, því ég veit að hana langar til þess. Hún hún ætlar að loka hátíðinni í ár og ég er viss um að það verði einhverjir töfrar í Djúpavogskirkju þá.“

Gaman að vera með austfirska tónlistarmenn
Á Hammondhátíð ársins munu einnig al-austfirskir tónlistarmenn stíga á stokk. „Við fáum til okkar Guðmund Rafnkel Gíslason, með sitt nýja efni af disknum Þúsund ár, sem hann gaf út fyrir jól. Okkur finnst alltaf frábært að bjóða uppá austfirsk atriði og við reynum eftir fremsta megni að gera það á hverju ári. Gummi Gísla er auðvitað goðsögn í tónlistinni á Austurlandi – söngvarinn í Súellen, það er ekkert öðruvísi. Hann er líka með frábært band með sér og frábæra plötu í farteskinu.“

Heildarpassi eina vitið
Miðasala hefst á Tix.is klukkan tíu í fyrramálið. „Fyrst um sinn verða aðeins heildarpassar á hátíðina seldir í takmörkuðu magni. Síðar setjum við einnig í sölu miða á staka viðburði, en fjárhagslega er eina vitið að kaupa heildarpassa, þetta er ótrúlega margir klukkutímar af stórkostlegri tónlist fyrir lítinn pening.“

Hammondhátíð 2018

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar