Orkumálinn 2024

Forsetinn heiðursgestur Rúllandi snjóbolta/11

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, verður heiðursgestur við opnun listasýningarinnar Rúllandi snjóbolta /11 á Djúpavogi á morgun. Á sýningunni má bæði líta sögufræg íslensk listaverk og kínversk áróðursspjöld sem og verk listamanna frá ýmsum löndum.

„Listamennirnir hafa komið til okkar síðustu daga og um leið lifnar þorpið við. Það er allt á milljón í Bræðslunni núna þar sem verkin prýða fleiri og fleiri veggi,“ og krók og kima segir Greta Mjöll Samúelsdóttir, atvinnu- og menningarfulltrúi Djúpavogshrepps.

Rúllandi snjóbolti er samtímalistasýning sem haldin er á sumrin í Bræðslunni á Djúpavogi. Sýningin er samstarfsverkefni Djúpavogshrepps og CEAC (Chinese European Art Center) í Xiamen, Kína, en CEAC er sjálfseignarstofnun sem stofnuð var árið 1999 af Ineke Guðmundsson með fjárhagslegum stuðningi eiginmanns hennar, Sigurðar Guðmundssonar listamanns.

Þetta er í fimmta sumarið sem slík sýning er haldin á Djúpavogi og er ætlað að um átta þúsund gestir hafi sótt hana í fyrra. Greta Mjöll segir andrúmsloftið í ár þægilega afslappað þar sem reynsla sé komin á uppsetninguna.

Listaverkin eru af ýmsum toga frá ýmsum löndum. Þannig tók Englendingurinn Bill Aithinson upp gjörning í þorpinu í fyrradag sem kallast „Tears of a Loyal Patriot“ (Tár tryggs föðurlandssinna) og var hægt að tengja heimsmeistaramótinu í knattspyrnu. Opnunarathöfnin klukkan þrjú á morgun er á sama tíma og seinni hálfleikur leiks Englendinga og Belga um bronsverðlaunin á mótinu.

Um svipað leyti kom Erling Klingenberg til Djúpavogs en talsverð leynd er yfir verkum hans sem verður uppljóstrað á sýningunni. Heimamaðurinn Þór Vigfússon er meðal þeirra sem sýna en hann er einnig lykilmaður í undirbúningi sýningarinnar.

Af íslenskum verkum má nefna hunda Magnúsar Pálssonar, þekkt verk frá því á áttunda áratugnum sem lánað er austur úr safni Péturs Arasonar og Rögnu Róbertsdóttur. Þá verða 20 áróðursspjöld sem áður prýddu kínversk heimili úr safni Hafnia Foundation.

Sem fyrr segir verður forseti Íslands og fjölskylda hans heiðursgestir við opnunina. „Við eigum von á þeim í kvöld og erum mjög spennt fyrir að fá þau til okkar. Það er yndislegt að fjölskyldan fylgi með enda erum við mikill barnabær,“ segir Greta Mjöll.

Sýningin stendur til 19. ágúst.

Frá opnunarhátíð Rúllandi snjóbolta/9 í fyrra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.