Fórnaði sér fyrir leikhúsið - Með símann í annarri og ryksuguna á gólfinu.

Hrefna Hlín Sigurðardóttir grunnskólakennari og leikari í Línu Langsokk hefur ekki átt sjö dagana sæla. Á æfingatímabilinu slasaði hún sig tvisvar. Lenti í gifsi einu sinni og viðbeinsbraut sig líka.


Í heimi leikhússins er oft talað um bölvun leikhússins og er þá oft vísað í eitt ákveðið skoskt leikrit eftir William Shakespeare. En það leikrit má ekki nefna á nafn því þá lifir bölvunin áfram (Macbeth).

Hrefna Hlín hefur greinilega tekið á sig þessa leikhúsbölvun fyrir hönd Leikfélags Fljótsdalshéraðs. „Í fyrra skiptið datt ég á hausinn um ryksuguna heima á leiðinni á æfingu á Línu. Ég var að horfa á fótbolta í símanum, sá ekki ryksuguna, hrundi niður, beitti höndunum fyrir mig og slasaðist í úlnliðnum og endaði í gifsi,“ sagði Hrefna um fyrsta atvikið

Í seinna skiptið var hún líka á leiðinni á æfingu og rann í hálku og viðbeinsbraut sig. „Maður fórnar sér svona fyrir æfingarnar,“ bætir hún við.

Hún segir það hafi verið frekar erfitt að æfa svona á sig komna. „Ég át ansi mikið af verkjatöflum og lét mig hafa það. Mér finnst þetta svo skemmtilegt að ég vildi ekki hætta,“ sagði hún.

Hún hætti ekki og með leikstjóranum fann hún lausnir á því hvernig hægt væri að nýta meiðslin í sýninguna. „Jóel leikstjóri stakk upp á því að karakterinn yrði bara brotinn og í gifsi, allur krambúleraður. Það gekk fullkomlega því ég leik aðra lögguna af tveimur og þær eru mjög heimskar og klaufskar,“ útskýrir hún.

Þetta tók hins vegar sinn toll því eftir generalprufuna gafst hún svo gott sem upp. „Mig langaði að hætta þá. Ég var alveg búin á því. Ég rak mig nokkrum sinnum mjög illa í á rennslinu og var svo kvalin.

Jóel talaði mig hinsvegar til og sannfærði mig um að gera þetta. Sem var frábært hjá honum. Ég hefði ekki viljað hætta,“ sagði Hrefna Hlín að lokum og hlakkar til þeirra sýninga sem eru eftir en næstu sýningar á verkinu verða um helgina í hátíðarsal Alþýðuskólans á Eiðum.

 

Hrefna Hlín í hlutverki sínu sem stórslasaða löggan.  Myndin er aðsend. 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.