Orkumálinn 2024

„Fór að rofa til hjá mér þegar ég lenti á flugvellinum á Egilsstöðum“

Sverrir Mar Albertsson hefur verið framkvæmdastjóri AFLs Starfsgreinafélags frá sumrinu 2005. Hann kom upphaflega austur til að vinna sem bílstjóri á Kárahnjúkum um vorið og reiknaði ekki með að ílengjast. Hann segir forustufólk í verkalýðsfélögum hafa brugðist skyldu sinni að verja forseta Alþýðusambands Íslands og þar með sambandið þegar hann hefur setið undir árásum.

„Foringjar í stórum félögum brugðust ekki við. Í stað þess að verkalýðsforystan stæði sameinuð og tæki samræðuna var forsetinn skilinn eftir úti á túni. Ég held að það hafi reynst okkur mjög dýrkeypt,“ segir Sverrir í viðtali í nýútkomnu fréttabréfi AFLs.

Þar nefnir hann sérstaklega undirritun kjarasamninga fyrir jólin 2013. „Þar skrifuðu 30-40 formenn undir samningana og fóru svo heim að halda jól og áramót. Eftir það mættu þeir aftur til vinnu og fóru þá að pæla í hvernig þær ættu að fá samningana samþykkta.

Það var ekki mikil prósentuhækkun í þessum samningum og þeir sem voru reiðir og vildu meira höfðu hálfan mánuð á samfélagsmiðlunum áður en nokkur fór að svara. Á þessum tíma var ráðist heiftarlega á forseta ASÍ, sem ekki gerði þessa samninga en enginn af þeim sem skrifuðu undir stóðu upp og sögðust hafa gert það og af hverju.

Síðan voru gerðir nýir samningar í febrúar með nánast sömu forsendum og samþykktir því þá voru menn búnir að fá útrás reiði sinnar.“

Verkefnið að ná skynsamlegum kjarasamningum sem skila raunverulegri kjarabót

Sverrir er annar tveggja frambjóðenda til forsetaembættisins á þingi ASÍ sem hófst í morgun. Kosið verður milli hans og Drífu Snædal á föstudag. Í viðtalinu ræðir hann meðal annars komandi kjarasamninga.

„Við heyrum tvennar sögur um hvað fólk vill. Hægt er að nota mælikvarða samfélagsmiðlanna sem nema mikla reiði en það eru ekki skilaboðin sem við fáum af vinnustaðafundum og ráðstefnum. Reiðin er til staðar en erfitt að segja hversu útbreidd hún er.

Fyrir ákveðna þjóðfélagshópa er kaupmáttur traustur og góður í sögulegu samhengi. Fyrir aðra er staðan erfið og þung. Að eignast húsnæði hefur aldrei verið leikur einn en það hefur aldrei þurft jafn mörg árslaun verkamanna til að kaupa þriggja herbergja íbúð og nú.

Við höfum verið nísk á aðstoð við barnafjölskyldur síðustu 20-30 ár. Meðan önnur lönd líta á barnabætur sem sjálfsagða þátttöku í kostnaði foreldra lítum við á þær sem fátækrahjálp því þú mátt ekki hafa neinar tekjur án þess að missa barnabæturnar. Staðan er sú sama með vaxtabætur.

Verkefnið er að ná skynsamlegum kjarasamningum sem skila raunverulegri kjarabót. Skattbyrði hefur verið flutt á lágtekjufólk og það þarf róttækari aðgerðir en kynntar eru í fjármálafrumvarpinu til að snúa því við.“

Fjölmiðlar ein af stoðum lýðræðisins

Sverrir er fæddur Hafnfirðingur, lærður blaðamaður frá háskóla í Kanada og starfaði sem blaðamaður og fréttastjóri á níunda áratugnum. Samhliða störfum sínum hjá AFLi hefur hann verið stjórnarformaður útgáfufélags Austurgluggans og Austurfréttar. Hann hefur áhyggjur af stöðu fjölmiðla í dag.

„Í skólanum var okkur kennt að áskriftirnar borguðu dreifingu og prentun en auglýsingarnar annan rekstrarkostað. Í dag verður erfiðara og erfiðara að selja áskriftir því fólk vill ekki borga fyrir það sem það fær frítt á netinu og auglýsingaféð fer til bandarískra auðkýfinga en ekki til að byggja upp íslenskt samfélag.

Ef þú horfir á stoðir lýðræðisins þá eru dómstólarnir ein þeirra og þeir eru fjármagnaðir með skattfé. Fjölmiðlarnir eru önnur stoð en tekjustofnar þeirra eru ótraustir. Við skulum gera okkur grein fyrir því að nær allir fjölmiðlar heimsins eru komnir í hendur fjármagnsaflanna og notaðir grimmt í þeirra þágu.

Hérlendis eru margar smátírur í myrkrinu, til dæmis Austurglugginn og fleiri staðarmiðlar. RÚV er sterki kastarinn, fjölmiðill sem að minnsta kosti reynir að vinna fréttir og umfjöllun á faglegan hátt.“

Tveir á bátnum sem ekki voru með dóma fyrir alvarleg brot

Eftir blaðamennskuna var Sverrir um tíma með eigin rekstur áður en hann fór á sjóinn. Hann fluttist til Danmerkur árið 1998 með þáverandi konu sinni og börnum. Hann segir það hafa verið heillaskref fyrir börnin sem hafi komist vel áfram í Danmörku.

„Ég var hins vegar ekki á góðum stað í lífinu. Ég var á sjónum mánuðum saman og þegar ég kom í land þurfti ég að ákveða það fyrir fram að vera edrú, til dæmis ef ég ætlaði eitthvert með börnunum, annars var ég búinn að opna fyrsta bjórinn fyrir hádegi. Hjónabandið þoldi ekki þetta álag.

Þegar ég horfi í baksýnisspegilinn geri ég mér grein fyrir að ég var alltaf að fara á lakari báta. Á síðasta norska bátnum sem ég var á taldi ég það saman að aðeins ég, skipstjórinn og einn annar Íslendingur sem var um borð í stuttan tíma, værum ekki búnir að vera í fangelsi fyrir alvarleg brot eða værum á leiðinni þangað.“

„Reyndu að hanga edrú í einhvern tíma“

Sverrir réði sig svo sem bílstjóra á Kárahnjúkum snemma árs 2005. Hann segist ekki hafa ætlað að vera á landinu nema í þrjá mánuði. Vistin er orðin lengri því um sumarið var hann ráðinn framkvæmdastjóri AFLs.

Sverrir tengir tímann á Kárahnjúkum við góðar minningar. „Það fór að rofa til hjá mér í mars 2005 þegar ég lenti á flugvellinum á Egilsstöðum. Ég var edrú, sóttur af starfsmanni á Kárahnjúkum sem þurfti að koma við í áfengisverslun á leiðinni. Ég labbaði með honum inn og var kominn með vodkapela í hendurnar en fyrir einhvern undarlegan tilverknað lagði ég hann frá mér.

Ég hugsaði með mér: „Nei, þú varst að ráða þig sem bílstjóra, reyndu að hanga edrú í einhvern tíma.“ Við fórum upp á Kárahnjúka þar sem ekkert áfengi var og ég náði vopnum mínum tiltölulega hratt,“ segir Sverrir sem verið hefur alveg án áfengis síðan í byrjun árs 2007. „Þann 20. janúar 2007 fór ég inn á Vog. Eftir á er það mikill hamingjudagur því ég hef verið edrú síðan.“

Óvenju margar fæðingar í Póllandi í lok framkvæmdatímans

Sverrir fór nokkrum sinnum upp að Kárahnjúkum til að gæta réttinda félagsfólks AFLs. Þar voru bæði mál sem vöktu mikla athygli með miklum átökum og önnur sem fóru lægra. Gerð stíflunnar miklu hófst á undan byggingu álversins á Reyðarfirði sem þýddi að verkalýðsforustan lærði af reynslunni, til dæmis við að byggja upp traust gagnvart erlendum starfsmönnum. Undir lokin voru samskiptin orðin sérlega góð.

„Á Reyðarfirði héldum við námskeið fyrir trúnaðarmenn. Þangað komu 3-4 Pólverjar sem voru kosnir af samstarfsmönnum sínum. Yfirmönnum Bechtel fannst skrýtið að gefa þeim frí til að mæta á námskeiðið en létu undan. Mánuði síðar hringdu þeir og spurðu hvort við gætum ekki haldið fleiri námskeið. Þeir föttuðu að það væri sniðugt að vera með menn sem allir treystu sem verkstjóra.

Ég held líka að það hafi verið margar fæðingar í Póllandi undir lok framkvæmdanna. Við fræddum starfsmenn um réttinn til fæðingarorlofs og þeir áttuðu sig á að þeir gætu lengt launin sem þeir höfðu hér og voru mun hærri en heima í Póllandi, um marga mánuði með að eignast barn á síðustu mánuðunum. Á tímabili vorum við með starfsmann sem gerði ekkert annað en hjálpa þeim að sækja um fæðingarorlof.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.