Fólkið vorkenndi bresku hermönnunum

Þegar Vigfús Már Vigfússon stóð frammi fyrir því að velja sér efni í lokaritgerð í háskólanámi í sagnfræði varð honum hugsað til æskustöðvanna á Reyðarfirði og minja þar og sagna frá síðari heimsstyrjöldinni. Úr varð að hann skrifaði hvernig minningar um þennan tíma hafa varðveist meðal Reyðfirðinga.


„Maður gekk innan um stríðsminjar, það var alltaf verið að tala um hermennina og svo var draugasaga um spítalann. Mér fannst þetta mjög merkilegt og mig langaði að vita hvernig við myndum eftir þessum tíma, sem var sandkorn í fjöru hildarleiksins en hafði gríðarleg áhrif í okkar samfélagi,“ segir Vigfús Már þegar hann rifjar upp sínar eigin minningar frá Reyðarfirði í nýjasta tölublaði Austurgluggans. 

Stríðssagan er fyrirferðamikil í því enda voru þann 1. júlí 80 ár frá því Reyðarfjörður var hernuminn. Þá er þess víða minnst að 75 ár eru nú frá stríðslokum og að auki eru 25 ár síðan Stríðsárasafnið á Reyðarfirði opnaði.


Kynslóðirnar heyra sömu sögurnar

Sjálfur er Vigfús Már fæddur árið 1964, um 20 árum eftir að stríðinu lauk, en eitt af því sem hann kannaði í rannsókn sinni var hvernig hans jafnaldrar og yngra fólk hugsaði til stríðsáranna. Meðal annars tók hann viðtöl við tvo einstaklinga fædda á níunda áratugnum sem áttu foreldra frá Reyðarfirði. „Þau höfðu bæði heyrt sömu sögur og ég, til dæmis um afturgöngu hjúkrunarkonunnar í spítalakampinum,“ segir hann.

Annað þeirra var Sylvía Dögg Halldórsdóttir, myndlistarkona. Sumarið 2012 hélt hún sýningu í Stríðsárasafninu á gömlum myndum sem hún hafði unnið undir yfirskriftinni „Love Tank“ sem hún tók síðar upp sem listamannsnafn.

Þóttu ekki miklir menn

Fyrsti breski flokkurinn sem kom til Reyðarfjarðar taldi um 200 hermenn. Bretarnir urðu flestir um 900, en með þeim fylgdu minni flokkar frá Kanada og Noregi. Þeir fóru árið 1942 þegar Bandaríkjamenn tóku yfir hérlendis.

Í ritgerð sinni studdist Vigfús bæði við viðtöl við eldri Reyðfirðinga um stríðsárin, sem nemendur úr Háskóla Íslands hljóðrituðu í aðdraganda opnunar Stríðsárasafnsins árið 1995, auk þess sem hann tók nokkur viðtöl sjálfur.

„Gegnumgangandi talaði fólk um bresku hermennina eins og umkomulausa drengi langt frá heimahögum. Sérstaklega höfðu þeir sem komu hingað fyrst litla reynslu. Fólk hafði samúð með þeim því það bárust fréttir af loftárásum Þjóðverja á enskar borgir og það hafði líka samúð með frændum sínum Norðmönnum því landið þeirra hafði verið hernumið,“ segir Vigfús.

Í ritgerðinni er vitnað í heimildarmann sem segir bresku hermennina hafa verið eins og þeir væru dregnir upp úr kolanámum í Jórvíkurskíri. „Bretarnir þóttu ekki miklir menn að sjá. Mönnum þótti heldur ekki mikið til búnaðar þeirra eða vinnubragðanna við að byggja braggana koma. Bandaríkjamennirnir voru á móti miklu betur búnir.“

Vigfús Már rifjar upp sögur af því að Bretarnir hafi ekki verið sérstaklega lunknir hermenn. Þannig hafi þeir skotið linnulaust en árangurslaust þegar þýskar hervélar komu inn á fjörðinn. „Það var sagt að Þjóðverjarnir hefðu flogið svo lágt að þeir hefðu horfst í augu við fólkið á jörðu niðri, glott og vinkað. Þótt fólk hafi haldið með Bretunum þá þykir þetta fyndið dæmi um hvað Þjóðverjarnir voru útsmognir en Bretarnir klaufskir.“

Vinguðust við fjölskyldur

Í ritgerðinni segir meðal annars frá því að sumir hermannanna hafi orðið heimagangar á vissum heimilum á Reyðarfirði. Sumir þeirra hafi til dæmis verið lagnir við að láta bjóða sér í heimsókn á kvöldmatartíma. „Það kom fram í viðtölunum að þeir hefðu reynt að vingast við börn og komast þannig inn á heimilin. Þetta voru einkum Bretarnir því þeirra bækistöðvar voru inni í bænum. Bandaríkjamennirnir voru aftur utan við.“

Bretarnir keyptu líka mikla þjónustu af Reyðfirðingum. Vigfús Ólafsson, faðir Vigfúsar Más, var barn á stríðsárunum á Reyðarfirði. Í ritgerðinni er vísað til frásagna hans um að þegar mest lét hafi móðir hans þvegið föt af 116 hermönnum í Búðaránni. Eins hafi Bretarnir keypt mjólk, rjóma og egg af heimilinu.

Nokkur vinskapur tókst milli heimilisfólksins í Dvergasteini og bresku hermannanna. Vigfús Már segir afa sinn lengi hafa talað um Caullis Cooper, einn þeirra átta sem fórust í leiðangrinum sem endaði við Veturhús í Eskifirði. Caullis er jarðsettur á Reyðarfirði og annaðist amma Vigfúsar Más leiði hans. Ekkja Caullis sendi fjölskyldunni þakkarbréf sem er meðal fylgigagna ritgerðarinnar.

Í búi Vigfúsar eldri er líka bók með dýrum sem rísa upp þegar bókin er opnuð sem honum var gefin af breskum hermönnum þegar hann var aðeins þriggja eða fjögurra ára. „Langafabörnin eru farin að skoða bókina þegar þau koma í heimsókn til hans,“ segir Vigfús Már.

Norðmennirnir slógust á böllum

Hann kveðst í viðtölunum ekki hafa orðið var við kergju í garð hernámsliðsins né að það hefði verið að troða heimamönnum um tær. Þó hafi verið munur á viðhorfi og samskiptum eftir því hverrar þjóðar hermennirnir voru.

„Einhverjum fannst kanadíski hópurinn ekki hafa borið af sér góðan þokka og Helgi Seljan, fyrrverandi þingmaður, var hrifnari af Bretunum en Ameríkumönnunum. Norðmennirnir þóttu samlagast Reyðfirðingum vel því þeir voru svo líkir en svo var einn sem sagði að þeir hefðu verið of líkir því þeir slógust á böllum!“

Á suðvesturhorninu var nánu samneyti hermanna við íslenskar ungmeyjar illa tekið og reyndu ráðamenn að girða fyrir það. Vigfús Már segist ekki hafa orðið þess viðhorf áskynja eystra. „Mér finnst frásagnir af samskiptum íslenskra kvenna og hermanna ekki neikvæðar. Mér finnst þeim sýndur skilningur í samtölunum þótt ég viti ekki hvað fólki fannst þegar þetta var að gerast.

Heilt yfir leggur fólk gott orð til hermannanna. Þeir sem minntust harmleiksins við Veturhús höfðu alfarið samúð með hermönnunum þótt yfirmennirnir hefðu sýnt af sér glópsku.“

En þótt samskiptin hafi á köflum verið mikil komu skeið þar sem hernámsliðið lokaði sig algjörlega af. „Þetta var lokað samfélag ef eitthvað kom upp á. Þannig ber fólki ekki saman um hvort eða hve margir dóu þegar kviknaði í pakkhúsi sem hermenn dvöldu í. Þá er einn Kanadamaður jarðsettur á Reyðarfirði. Hann dó af völdum skotsárs en sögurnar eru ekki samhljóða um hvort hann framdi sjálfsmorð eða var skotinn af félögum sínum. Fólkið varð samt vart við þessa viðburði.“

Tröllasögur um fjölda

Koma hernámsliðsins hafði mikil efnahagsleg áhrif á Reyðarfjörð. Þar bjuggu um 300 manns þegar hermennirnir komu en Bretarnir urðu um 900 talsins. „Það hafði verði kreppa og karlmenn á Reyðarfirði fóru mikið suður á land á vertíð. Allt í einu voru atvinnutækifæri í þeirra heimabyggð. Einn viðmælandinn minnist þess að faðir hans, kaupfélagsstjórinn, hafi bannað honum að vinna hjá hernum því kaupið þar væri svo hátt að það skemmdi verðmætamatið.“

Sögur um fjölda hermannanna hafa stundum verið á reiki, jafnvel sagt að þeir hafi verið 3000 á Reyðarfirði á sama tíma. Í ritgerð Vigfúsar er farið nokkuð vel yfir heimildir um fjölda hermanna og telur hann að þessi tala sé orðum aukin. Fjölgað hafi þegar Bandaríkjamenn tóku við en þeir hafi ekki orðið nema um 1200. „Ég held að mest hafi 2000 hermenn verið á Reyðarfirði í einu. Það var á því augnabliki sem leið frá því síðasti bandaríski hermaðurinn kom í land og þar til síðasti Bretinn fór því það var sama skipið sem sótti þá bresku og kom með þá bandarísku,“ segir Vigfús.

En sagan af umskiptunum hefði getað orðið önnur en hún er. „Ég vissi það ekki fyrr en ég fór að vinna ritgerðina en það var ráðist á þetta stóra skip í mynni Reyðarfjarðar. Þá voru um 2000 manns um borð, Bandaríkjamenn á leið til Reyðarfjarðar og Bretar sem teknir höfðu verið um borð á Seyðisfirði. Þýsku flugvélarnar komust ekki það neðarlega því það var skotið á þær frá Vattarnesi. Það er hins vegar erfitt að ímynda sér hvað gerst hefði ef skipið hefði sokkið því á þessum tíma var lítið um bjargir.“

Vigfús Már Vigfússon. Mynd: Úr einkasafni


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.