Orkumálinn 2024

Flytur Cohen og jólalög á Fáskrúðsfirði

Tónlistarmaðurinn Daníel Hjálmtýsson ætlar að heiðra átrúnaðargoð sitt, Leonard Cohen, með að flytja lög hans á tvennum tónleikum í Fáskrúðsfjarðarkirkju á aðventunni. Daníel segir myrkur en samt hlýju einkenna lög Cohen, rétt eins og íslenskan desembermánuð.

„Ég hef auðvitað litið upp til Leonard Cohen sem ljóðskálds og svona hálfgerðs kameljóns í lífi og listum frá því ég var unglingur.

Mér finnst magnað að lesa um tímabilin hans og hvernig hann leit á lífið og fólkið í kringum sig. Svo mikið myrkur en samt svo mikil fegurð og hlýja og sannleikur og svo miklir persónutöfrar. Það þarf ekki að koma neinum á óvart að hann er þá mikill áhrifavaldur á mig í minni eigin músík sömuleiðis,“ segir Daníel sem býr á Fáskrúðsfirði en starfar sem kennari á Reyðarfirði.

Hugmyndin að tónleikum með lögum Cohen á sér nokkurn aðdraganda. Hún skaut fyrst upp kollinum á æfingum fyrir jólatónleika í Reykjavík árið 2016 þegar Cohen var nýlátinn. Úr varð að hópur tónlistarmanna, þar með talið Daníel, heiðruðu minningu Cohen með tónleikum. Þá hefur Daníel einnig sungið lög hans ásamt eigin efni á tónleikum.

Síðan kom fram sú hugmynd að blanda saman lögum Cohen og jólalögum. Daníel hefur verið meðal flytjenda á slíkri dagskrá í Reykjavík, en Covid-faraldurinn setti þá tónleika á ís.

En nú er hann kominn austur og ætlar að taka upp þráðinn á nýjum heimaslóðum. „Í þetta skiptið fannst mér fullkomin lending að halda lágstemmda tónleika í kirkjunni í mínum nýja heimabæ, Fáskrúðsfirði og þannig upplifa aðventuna með fólkinu hérna og flytja þessi fallegu lög á nýjum stað í fyrsta sinn.

Í ljósi aðstæðna er það einnig hlýlegt þegar ekki getur orðið að þessum hátíðartónleikum í Iðnó til dæmis. Þá fannst mér upplagt að ég yrði einn en ég á von á gestasöngkonu með mér líka.

Ég heimsótti hina ýmsu staði hér á Austurlandi með góðvini mínum Krumma Björgvinssyni og flutti þar eigin lög í sumar en þá varð Fáskrúðsfjörður út undan.

Þannig fannst mér þetta liggja beinast við og halda fremur tvenna tónleika heima í stað þess að flakka á milli. Þessi kirkja er yndislega falleg og hlý og er þetta tilvalið tækifæri til að koma í heimsókn og hafa það huggulegt í aðdraganda jólanna. Ég hygg á að taka einhver notaleg jólalög líka svona í bland.“


Tónleikarnir verða í Fáskrúðsfjarðarkirkju laugardagana 11. og 18. desember. Miðasala er hafin og segir Daníel hana hafa farið vel af stað. Vegna sóttvarna er fjöldi miða takmarkaður.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.