Flóttafólk frá Úkraínu kynnt fyrir Austurlandi

Austurbrú hefur haldið úti námsleið síðustu mánuði sem nefnist landneminn. Námsleiðin er fyrir flóttafólk frá Úkraínu en náminu lauk á dögunum með ferðalagi nemenda um Austurland.

Kennsla fór fram á úkraínsku en kennarinn var Iryna Boiko sem er úkraínsk. Í námsleiðinni var kennd var samfélagsfræði, sniðin að flóttafólki og innflytjendum. Markmið Landnemans er að veita þátttakendum upplýsingar og innsýn í mikilvæga þætti sem snúa að búsetu og atvinnu á Íslandi. Í námsleiðinni eru veittar gagnlegar upplýsingar um íslenskt samfélag, stofnanir og þjónustu en ekki síður um ýmsa menningartengda þætti og daglegt líf á Íslandi.

Þátttakendur á námskeiðinu voru rúmlega tuttugu en náminu lauk um síðustu helgi með ferðalagi um Austurland. Ferðalagið var skipulagt af Austurbrú, Múlaþingi og Rótarýklúbbi Héraðsbúa og var öllu flóttafólki frá Úkraínu boðið að taka þátt, ekki eingöngu nemendum námskeiðsins. Rótarý styrkti ferðalagið og skaffaði rútu, bílstjóra og sá auk þess um fararstjórn.

Fyrsta stopp ferðalagsins var á Fáskrúðsfirði þar sem tekið var á móti hópnum á Franska safninu og gengið með þeim um sýninguna Frakkar á Íslandsmiðum. Að lokinni leiðsögn um safnið fór hópurinn í Gallerí Kolfreyju, þar var starfsemin kynnt og sveitarfélagið Fjarðabyggð bauð upp á hressingu.


Því næst var tekið á móti hópnum á Skíðasvæðinu í Oddskarði í fallegu veðri þar sem þau voru upplýst um ýmis praktísk mál eins og leigu á búnaði, gjaldskrá og ýmislegt fleira.

Hópurinn var nestaður upp í næsta áfanga með heimabökuðu bakkelsi sem nokkrar konur sem starfa í Múlanum í Neskaupstað bökuðu. Haldið var í Snæfellsstofu í Fljótsdal þar sem hópnum var sagt frá starfinu þar og Vatnajökulsþjóðgarði.

Snæddur var kvöldverður í boði Tehússins og þar var síðan slegið upp sannkölluðu partíi. Séra Kristín Þórunn Tómasdóttir, prestur í Egilsstaðaprestakalli og meðlimur í Rótarýklúbbi Héraðsbúa, tók meðal annars lagið og hópurinn setti upp ekta úkraínskt karókí. Ferðinni lauk með ferð í VÖK þar sem hópurinn gat slappað af eftir langt og skemmtilegt ferðalag í boði VÖK Baths.

Hrönn Grímsdóttir, náms- og starfsráðgjafi hjá Austurbrú, var verkefnastjóri Landnemans. Hún segir svona ferðalag afar þýðingarmikinn þátt í náminu: „Við teljum að ferðalag eins og þetta geti haft mikið að segja fyrir aðlögun og vellíðan flóttafólks,“ segir hún. „Þarna fékk fólk tækifæri til að kynnast betur menningu og náttúru fjórðungsins, þau hittu fyrir margt fólk og fengu alls staðar hlýjar og góðar móttökur. Þau fengu upplýsingar frá fararstjórum um þjónustu, menningu og sögu samfélagsins og tækifæri til að spyrja. Einnig fengu þeir Íslendingar sem tóku þátt í ferðinni, á einn eða annan hátt, tækifæri til að hitta fólkið og kynnast því. Það kynntist betur innbyrðis, stækkaði félagsnetið og vonandi víkkaði það út þægindarammann!“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.