Orkumálinn 2024

Fljótsdalsdagurinn orðinn að heilli helgi

Fljótsdælingar ætla að gera sér glaða daga um helgina og halda upp á töðugjöld. Til þessa hafa Fljótsdælingar verið með einn dag sem hluta af Ormsteiti en gleðin teygir sig nú yfir fjóra daga. Oddvitinn segir að vilji hafi verið til að gefa viðburðum í sveitinni meira rými.

„Hér innan sveitar eru nokkrar vegalengdir og þær takmarka hvað hægt er að gera á einum degi. Umræðan var á þá leið að vilji væri til að gera meira með hátíðinni og gefa viðburðunum meira rými,“ segir Gunnþórunn Ingólfsdóttir, oddviti Fljótsdalshrepps.

Fljótsdalsdagur hefur allajafna verið hluti af Ormsteiti um miðjan ágúst. Sú hátíð verður nú um miðjan september en Fljótsdælingar ætla að halda sinni síðsumarhátíð. Fljótsdalsdagurinn hefur verið á sunnudegi og með þungamiðju á Skriðklaustri með óhefðbundnum íþróttaleikum Ungmennafélagsins Þristar, lúthersk-kaþólskri messu í klausturrústunum og tónleikum við Gunnarshús þar sem að þessu sinni spilar Hundur í óskilum.

Helgin byrjar strax í kvöld með því að nokkrir bændur úr sveitinni sem fóru til Borgunarhólms til að kynna sér matvælaframleiðslu þar segja frá för sinni. Gunnþórunn var þar á meðal. „Austurbrú og Búnaðarsamband Austurlands efndu til ferðarinnar til að efla nýsköpun um sveitinni. Það voru nokkrir Fljótsdælingar svo heppnir að komast með og það sem við sáum var mjög áhugavert.“

Í fótspor tröllskessunnar

Á morgun verður síðan Tröllkonustígshlaup hlaupið í fyrsta sinn. Lagt verður af stað frá félagsheimilinu Végarði og hlaupið – eða gengið - upp stíginn, beygt út Klausturfjall að Bessastaðaárgili og komið niður nýjan skógarstíg sem liggur að Snæfellsstofu, sem vígður verður um leið. Leiðin er um 5 km og hækkunin á leiðinni um 300 metrar.

„Tröllkonustígurinn er berggangur sem sker Valþjófsstaðarfjallið hér ofan Végarðs. Hann gengur í gegnum dalinn því sjá má hann líka að sunnanverðu. Sagan er að tröllskessa hafi verið á ferðinni og tyllt fótum sínum sitt hvoru megin dals.“

Gunnþórunn á ekki von á að taka þátt í hlaupinu en hún er ekki óvön því að fara stíginn. „Ég hef oft gengið bergganginn. Hann er hluti af smalasvæði Valþjófsstaðar þar sem ég er alin upp.“

Á laugardag verður síðan boðið upp á gönguferð við Laugarfell og kvöldvöku í Óbyggðasetrinu. „Ég er töluvert spennt fyrir öllum þessum dagskrárliðum. Nokkrir eru nýir og gætu verið komnir til að vera ef vel tekst til.“

Sprettan léleg framan af

Töðugjöld eru jafnan haldin þegar búið er að heyja. Því er eðlilegt að spyrja hvernig heyskapur hafi gengið í Fljótsdal í sumar. „Hann hefur gengið þokkalega. Það hefur samt verið ónæðissamt, okkur finnst ekki hafa komið góðir þurrkaflar nema fyrri part sumars. Sprettan var léleg framan af vegna þurrka. Síðan tók að rigna og allt tók við sér þannig að þeir sem heyjuðu seinna eða hafi heyjað túnin tvisvar hafi fengið ágæta uppskeru. Núna eru flestir langt komnir þótt einhverjir eigi mögulega eftir að heyja há.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.