Fleiri telja álver jákvæð fyrir íslenskt efnahagslíf

Rúmlega 78 prósent landsmanna telja að álver hafi frekar eða mjög jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf. Rúmlega átta prósent telja áhrifin frekar eða mjög neikvæð. Þetta kemur fram í  niðurstöðum landskönnunar sem Capacent Gallup gerði nýlega fyrir Alcoa Fjarðaál.
2008_02_rodmill_2_small.jpg

Í fréttatilkynningu frá Alcoa Fjarðaáli segir að rúmlega 59 prósent landsmanna séu mjög eða frekar jákvæð gagnvart Fjarðaáli í Reyðarfirði. Þetta hlutfall var 55,1 prósent í byrjun árs 2005.

,,Landsmenn eru nú almennt jákvæðari gagnvart byggingu álvera en þeir voru fyrir tveimur árum. Tæp 49 prósent landsmanna eru nú frekar eða mjög jákvæð gagnvart byggingu álvera og hefur þeim fjölgað um 8 prósentustig á tveimur árum. Rúmlega 32 prósent landsmanna eru hins vegar frekar eða mjög neikvæð gagnvart byggingu álvera og hefur þeim fækkað um 6 prósentustig frá 2006.
 
Tæplega 90 prósent (89,7%) íbúa á Mið-Austurlandi telja að álver Alcoa á Reyðarfirði hafi haft frekar eða mjög jákvæð áhrif á búsetuskilyrði á Austurlandi og yfir 95 prósent íbúanna eru ánægð með að búa á þessu landssvæði. Sextíu og sex prósent íbúanna eru ánægð með þá þjónustu sem er í boði á svæðinu, en af þeim sem eru óánægðir með þjónustuna vilja 34,3% aukna verslunarmöguleika, 26,9% fjölbreyttari þjónustu, 21,5% aukna afþreyingu og 18,1% betri samgöngur. Í sambærilegri könnun sem gerð var um mánaðamótin mars-apríl 2007 nefndu 23,5 prósent þeirra sem óánægðir voru með þjónustuna betri samgöngur eða 5,4 prósentum fleiri en nefna það atriði nú.
 
Á Norðurlandi eystra hefur þeim fjölgað um 11,1 prósent, sem eru frekar eða mjög hlynnt byggingu álvers á Bakka miðað við  sömu könnun, sem gerð var um mánaðamótin október-nóvember 2006. Á svæðinu eru nú 69,3 prósent íbúanna hlynnt byggingu álversins. Þá telur 81 prósent íbúa á Norðurlandi eystra að ef af byggingu álvers á Bakka verður muni það hafa frekar eða mjög jákvæð áhrif á búsetuskilyrði á Norðurlandi.
 
Um var að ræða þrjár síma- og netkannanir, gerðar á tímabilinu september til nóvember, það er könnun meðal íbúa á landinu öllu, könnun meðal íbúa á Mið-Austurlandi og könnun meðal íbúa á Norðurlandi eystra. Markmið þeirra var að athuga viðhorf fólks til Alcoa, áliðnaðarins á Íslandi og álversframkvæmda.
 
Í úrtaki landskönnunarinnar voru 2.386 einstaklingar á aldrinum 16-75 ára sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá frá öllu landinu. Svarhlutfall í könnuninni var 65%. Í úrtaki könnunar meðal íbúa á Mið-Austurlandi var 1.491 instaklingur á aldrinum 16-75, valinn af handahófi úr þjóðskrá. Svarhlutfall var 62%. Í úrtaki könnunar meðal íbúa á Norðurlandi eystra var 2.185 einstaklingar á aldrinum 16-75, valdir af handahófi úr þjóðskrá. Svarhlutfall var 65,6%," segir í fréttatilkynningu Alcoa Fjarðaáls.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.