Orkumálinn 2024

Fjórir góðkunnir tónlistarmenn í eina sæng í Egilsbúð á föstudagskvöld

„Fyrir utan að á dagskránni er bara gott stuð og skemmtun þá ætlum við að taka smá popp, smá rokk, djass og einhver karabísk áhrif verða líka til staðar,“ segir tónlistarmaðurinn Sváfnir Sig, en hann er einn fjögurra góðkunnra tónlistarmanna sem troða upp í Egilsbúð í Neskaupstað á föstudagskvöld.

Hér er um að ræða, auk Sváfnis, þá Pálma Sigurhjartarson og Red Barnett, sem er aukasjálf Haraldar V. Sveinbjörnssonar, en þeim til aðstoðar á trommur verður Karl Pétur Smith.

Þremenningarnir hafa undanfarin ár gefið út töluvert af tónlist hver fyrir sig og segir Sváfnir að þar sem fleiri séu sterkari en færri hafi þeir ákveðið að slá saman reitum í eina svona „súpergrúppu.“ Sjálfur hefur Sváfnir gefið út tvær sólóplötur síðustu ár og lag hans Allt of gamall nýtur nú vinsælda. Pálma Sigurhjartarson þarf vart að kynna enda gerði hann lengi garðinn frægann með Sniglabandinu og nú síðar á eigin vegum. Hann gaf út sólólplötu í lok síðasta árs sem hlaut lof. Þá hefur Haraldur V. Sveinbjörnsson gefið út tvær plötur undanfarin ár og fékk Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir plötu sína Shine árið 2015. Þá var lag hans Austronauts valið lag ársins 2020.

„Við höfum allir verið að gefa nokkuð út sjálfir og það verður blanda af því öllu því besta sem við spilum fyrir fólkið í Egilsbúð. Þetta verður fyrst og fremst þægilegt og við höfum fengið afar fínar viðtökur á þeim stöðum sem við höfum komið fram á í sumar. Þetta er tónlist fyrir alla aldurshópa, við erum að taka samtal við gesti á sama tíma og það verður notaleg stund.“

Tónleikarnir eru hluti Tónaflugs í Neskaupstað en það er samstarfsverkefni SÚN, Beituskúrsins og Menningarstofu Fjarðabyggðar. Húsið opnar klukkan 21 en tónleikarnir hefjast klukkustund síðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.