Finna þarf gullið áður en Lagarfljótsormurinn tortímir Fljótsdalshéraði

Hrafnkell Freysgoði og Álfgerður á Ekkjufelli fara fyrir ævintýraglöðu ferðafólki sem hefur hug á að leita að gullhring Lagarfljótsormsins, sem hefur glatast í ævintýraleiknum „Leitin að gulli ormsins.“

„Þetta er í raun tvíþætt. Annars vegar kort af Fljótsdalshéraði með lýsingum á hentugum dagleiðum um svæðið og hins vegar leikur fyrir snjalltæki,“ segir Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri sem leitt hefur vinnuna við leikinn.

Búið er að stela gullhring Lagarfljótsormsins sem, eins og gefur að skilja, tekur því ekki vel. Hafa þarf því snör handtök áður en hann í bræði sinni tortímir Fljótsdalshéraði. Spilarar eru partur af föruneyti hringsins sem hefur það verk að finna hringinn. „Föruneytið er leitt af Hrafnkeli Freysgoða og Álfgerði á Ekkjufelli, hinum fornu hetjum,“ segir Skúli.

Um er að ræða nútímanlegan ratleik þar sem spilarar þurfa að fara á milli staða og afla vísbendinga til að setja saman lausnarorðið sem bendir á staðsetningu gullsins. Leikurinn byggir á leiðsöguforritinu Locatify og er spilaður þannig að farið er eftir kortinu og áð á merktum stöðum. Forritið áttar sig á staðsetningunni og þegar á hana er komið fer af stað frásögn fyrir spilara auk þess sem lagðar eru fyrir þá þrautir og spurningar. Þegar þeim hefur verið svarað fá spilarar rún sem nýtist þeim til að leysa hina miklu gátu.

Að leiknum standa Þjónustusamfélagið á Fljótsdalshéraði og Upphéraðsklasinn með stuðningi frá atvinnumálasjóði Fljótsdalshéraðs og samfélagssjóði Fljótsdalshrepps en Skúli Björn hefur leitt vinnuna. Ævintýrakortin munu liggja frammi á völdum stöðum, svo sem sumarbústöðum og gististöðum en dreifing á þeim er nýhafin. Leikinn má finna á bæði App Store og Play Store.

„Markmiðið er að auka afþreyinguna og skemmtunina við að dvelja á Héraði en beina fólki um leið á áhugaverða staði. Þá tengist þetta verkefnum sem við hjá Gunnarsstofnun höfum komið að um að nota leiki til að miðla fræðslu um menningararfinn.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.