Fimm Austfirðingar fá listamannalaun

Fimm Austfirðingar eru á lista þeirra sem hljóta listamannalaun í ár. Flestir þeirra starfa í sviðslistum og eru þar þátttakendur í stórum hópum.

Rithöfundurinn Jónas Reynir Gunnarsson fær listamannalaun í þrjá mánuði. Hann hefur vakið mikla athygli að undanförnu en fyrsta skáldsaga hans, Millilending, kemur út á ensku á árinu og samið hefur verið um danska útgáfu.

Gítarleikarinn Svanur Vilbergsson frá Stöðvarfirði fær einnig sex mánaða laun úr launasjóði tónlistarflytjenda.

Sviðslistafólkið skiptist í þjá hópa. Stefán Benedikt Vilhelmsson hefur löngum verið meðal lykilmanna leikhópsins Lottu sem ferðast um landið á hverju ári með barnasýningar. Hópurinn fær samanlagt 20 mánaða laun til að setja upp sýningu sína í sumar.

Sigríður Eir Zophoníasardóttir er þekkt fyrir störf sín í útvarpi og hljómsveitinni Evu en hún tilheyrir einnig sviðslistahópnum Stertabendu. Hópurinn fær 17 mánaða laun til að setja upp verkið Insomnia Café.

Fáskrúðsfirðingurinn Guðmundur Ingi Úlfarsson hefur til þessa fyrst og fremst verið í hönnun en hann tilheyrir hópnum Marble Crowd sem fær 13 mánaða laun til að setja upp verk sem kallast Sjö svanir.

Alls var úthlutað 1600 mánaðarlaunum til 369 listamanna. Upphæð þeirra nemur alls 600 milljónum króna. Launin eru í raun verkefnastyrkir og þurfa styrkþegar að skila framvinduskýrslum til stjórnar sjóðsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar