Fermingarnar færðar til hausts

Eftir að ljóst var að engar fermingar yrðu um páska kusu flest fermingarbörn að færa fermingardaginn fram til hausts. Austfirskir prestar hafa að undanförnu tekið tæknina í sína þágu til að halda uppi helgihaldi.

Strax og samkomubanni var komið á föstudaginn 13. mars lýsti biskup Íslands því yfir að ekki yrði fermt um páskana né helgihald í kirkjum.

Sigríður Rún Tryggvadóttir, prófastur í Austurlandsprófastsdæmi, segir að flest austfirsk fermingarbörn hafi farið að huga að fermingardögum í september þegar páskafermingarnar voru blásnar af.

Í Egilsstaðaprestakalli, þar sem Sigríður Rún þjónar, eru enn áformaðar fermingar um hvítasunnuhelgina, síðustu helgina í maí en örlög þeirra ráðast væntanlega eftir páska þegar línur skýrast um framtíð samkomubannsins.

Nokkrir fermingardagar eru hins vegar á dagskránni í september. Í Austfjarðaprestakalli í byrjun september og í kringum 20. september. Sigríður Rún segir dagsetningarnar enn ófrágengnar en meiri áhugi hafi verið á haustfermingum en sumarfermingum.

Hún segir þó að vaxandi tilhneiging hafi verið síðustu ár til að fermast um hvítasunnu en páska. „Hvítasunnufermingunum er að fjölga. Það er betra að ferðast þá en um páskana,“ segir Sigríður Rún.

Prestar tileinka sér nýja boðunarhætti

Samkomubannið kemur líka í veg fyrir hefðbundnar messur og helgihald í kirkjum um páskana. Margir prestar hafa hins vegar tekið tæknina í sína þágu og streymt messum síðustu vikur. Þegar hefur verið ákveðið að útvarpsmessu biskups á páskadag verði sjónvarpað í ár en Sigríður segir fólk líka sækja í messuhald í sinni heimakirkju. „Það er eitthvað við að fylgjast með messunni í sinni kirkju. Það eru jafnvel dæmi um að slíkar messur hafi fengið mun meira áhorf en venjuleg messa.“

Þeir hafa einnig margir sett fígúrur til að endurspegla helgileiki út í kirkjugluggana. „Það hefur komið í ljós að prestar eru fljótir að tileinka sér nýja boðunarhætti. Það er ýmislegt í gangi um allt land.“

Huga að þeim sem geta einangrast

Samkomubannið reynir einnig á andlegu hliðina hjá mörgum. Prestarnir á Austurlandi eru hluti af samráðshópi um áfallahjálp sem vinnur með almannavarnanefnd fjórðungsins. Sigríður Rún segir að hópurinn hafi lagt á það áherslur síðustu vikur að ná til þeirra sem eru í hættu á einangrun. Til þessa hafi ekki margir sett sig í samband við teymið að fyrra bragði en þess vegna sé mikilvægara að kortleggja þá sem helst þurfi aðstoð. Íbúar hafa verið hvattir til að hafa samband við teymið viti þeir um einhvern í námunda við sig sem þurfi stuðning.

„Við höfum verið að útbúa kerfi til að hringja í fólki. Við erum bæði að hugsa um félagslega einangrun en líka praktíska hluti, svo sem að fara í búð fyrir fólk. Þetta eru skrýtnir tímar. Sumir eiga maka á hjúkrunardeild sem þeir mega ekki heimsækja og fjölskyldan þeirra býr jafnvel annars staðar. Við höfum meðal annars hugað að þeim hópi.“

Hvert á að hafa samband?

Finna má upplýsingar um útsendingar frá messum á www.kirkjan.is og á heimasíðum og Facebook-síðum einstakra prestakalla. Þar má einnig finna símanúmer og netföng presta, sem veita sálgæslu og stuðningviðtöl, óháð trúfélagsaðild eða lífsskoðun. Á Austurlandi eru Austfjarðaprestakall, Egilsstaðaprestakall og Hofsprestakall.

Rauði krossinn 1717, https://www.facebook.com/raudikrossinn/
Covid sími HSA er 470 3066, þar er líka hægt að fá sálrænan stuðning.
Geðhjálp https://gedhjalp.is/radgjof-i-gegnum-netid/
Félagsþjónusta Fljótsdalshéraðs 4700700
Félagsþjónusta Fjarðabyggðar 4709000

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.