Feðgin saman í hljómsveit

Feðginin Geir Sigurpáll Hlöðversson og Rannveig Júlía Sigurpálsdóttir eru meðal þeirra sem mynda norðfirsku rokkhljómsveitina Coney Island Babies sem á dögunum hélt tónleika þar sem ólíkir tónheimar mættust þegar hún kom fram með Sinfóníuhljómsveit Austurlands.

„Það er einstakt að eiga svona áhugamál saman,“ segir Rannveig Júlía sem spilar á hljómborð og syngur með Coney Island Babies.

Faðir hennar syngur einnig og spilar á gítar. „Hún er músíkölsk með englarödd sem gefur tónlistinni ofboðslega mikið,“ bætir hann við.

Coney Island Babies gaf út plötuna Curbstone fyrir tveimur árum. Geir Sigurpáll segir að hljómsveitarmeðlimir hafi þá fundið fyrir áhuga á meiri klassík og allt hafi síðan smollið saman í útgáfuhófinu þegar stjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar hafi nefnt möguleikann á að sveitirnar kæmu fram saman.

„Það er mikið tónlistarlíf í firðinum og margt af flottu tónlistarfólki. Hér er bæði öflugur tónlistarskóli en líka BRJÁN (Blús-, rokk- og jassklúbburinn á Nesi) þar sem fólk hittist. Þetta hefur alið af sér fólk í popptónlist sem ekki er endilega fast í klassískum pælingum og getið af sér alls konar skemmtileg afkvæmi,“ segja þau.

Meðlimir Sinfóníusveitarinnar eru líka fjölhæfir, eins og einn þeirra, Charles Ross, útskýrði í þættinum Að austan í gærkvöldi þar sem sýnt var brot frá tónleikunum. „Við erum ekki bara að spila Mozart. Ég hef spilað á rafmagnsgítar í nokkrum hljómsveitum.“

Frá tónleikunum. Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.