Feðgar að austan ákváðu í bríeríi að hlaupa maraþon

Feðgarnir Stefán Þór Helgason og Helgi Halldórsson, fyrrum skólastjóri og bæjarstjóri á Egilsstöðum, hlupu á þriðjudag samanlagt heilt maraþon til stuðnings Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk með krabbamein.

„Maraþon er 42,2 km en við hlupum 42,6 km. Við skiptumst á að hlaupa 5,3 km hring þannig að þetta varð rúmur 21 km á hvorn okkar,“ segir Helgi.

Feðgarnir ætluðu upphaflega að hlaupa 10 km hvor í Reykjavíkurmaraþoninu sem halda átti á laugardag en var blásið af vegna samkomutakmarkana. Eins var ljóst að Stefán Þór væri ekki laus á laugardag þannig að feðgarnir breyttu um stefnu.

„Ég laumaði þessu þá að honum í bríeríi að við hlypum heilt maraþon. Honum fannst það góð hugmynd, þótt hann fengi bakþanka eftir á. Hann hefur aldrei hlaupið svona langt á einum degi,“ heldur Helgi áfram.

Ekki margir skokkarar á Egilsstöðum þá

Helgi er þaulreyndur hlaupari, hefur nokkrum sinnum hlaupið hálfmaraþon og laumar því glaðbeittur inn í samtalið að hann sé vanari hlaupari en sonurinn.

„Við hlupum ansi mikið saman fyrir austan, ég og Hjálmar Jóelsson apótekari. Það voru ekki margir á ferðinni þá að skokka. Við hlupum nokkrum sinnum hálf maraþon í Reykjavíkurmaraþoni, Hjálmar vann sinn aldursflokk einu sinni og ég stóð mig ágætlega, hljóp tvisvar á einum og hálfum tíma.

Ég vann líka einu sinni hálfmaraþon í Egilsstaðamaraþoninu. Það var mjög skemmtilegt hlaup. Ég er alltaf skokkandi, þegar ræktinni var lokað í vor setti ég mér það markmið að fara út að hlaupa hvern dag, hlaupa aldrei minna en 5,5 km og ekki hægar en 6 mínútur á kílómetra. Ég hljóp rúma 700 km þar til opnað var aftur.“

Erfitt að fara aftur af stað

Hringurinn sem þeir hlupu á þriðjudag náði frá heimili Helga í Goðatúni í Garðabæ eftir stígum meðfram ströndinni eftir Sjálandi og aftur til baka. Hringurinn er 5,3 km langur þannig að hvor þeirra hljóp fjórar ferðir. Helgi segir það nokkuð frábrugðið því að hlaupa hálft maraþon í einu.

„Meðan annar hljóp hvíldi hinn. Það er alltaf erfitt að koma sér af stað aftur. Leiðin var heldur ekki jafn slétt og felld og í venjulegu maraþoni, við hlupum langar brekkur og í gegnum vegagerð. Við kláruðum á 3:54 klukkutímum, ætlunin var að vera undir fjórum tímum. Við erum kátir með að það tókst.“

Engir strengir

Helgi er uppalinn Eskfirðingur en flutti í Egilsstaði árið 1974 þegar hann var ráðinn þar sem kennari. Hann varð aðstoðarskólastjóri og síðar skólastjóri 1986. Því embætti gegndi hann þar til fjölskyldan flutti suður 2001, utan fjögurra ára þar sem Helgi var bæjarstjóri. Nokkur aldursmunur er á feðgunum, Helgi er 69 ára en Stefán Þór 31 árs og var tólf ára er fjölskyldan flutti.

Þeir höfðu báðir ákveðið að hlaupa fyrir Kraft. Stefán Þór hefur notið liðsinnis félagsins en hann er með langvinnt hvítblæði sem haldið er í jafnvægi. „Við vildum hlaupa til styrktar góðu málefni og vorum báðir með þetta félag í huga sem hefur hjálpað mörgu ungu fólki.“

Nánasta fjölskylda þeirra hljóp með þeim síðasta spölinn. „Það var mjög gaman, það kom öll fjölskyldan, 14 manns, og hljóp með okkur síðasta spölinn, alveg niður í yngsta afkomandann sem er 1,5 árs,“ segir Helgi.

Hann sagðist hafa það ágætt eftir átökin þegar Austurfrétt ræddi við hann í gær. „Ég er alltaf hlaupandi. Ég finn þó að þetta tók á, ég er ekki eins sprækur og áður en ég lagði af stað í hlaupið. Ég finn þó ekki fyrir neinum strengjum eða slíku.“

Hægt er að heita á feðgana á Hlaupastyrkur.is til næsta miðvikudags. Þeir hafa þegar safnað um 150.000 krónum. „Þetta hefur komið á stuttum tíma. Við erum ánægðir með tímakaupið,“ segir Helgi að lokum.

Fjölskyldan á lokametrunum í hlaupinu. Þóra Magnea Helgadóttir, Stefán Þór, Helgi, Axel Hrafn Helgason og Þorkell Guðmundsson.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.