Fáir staðir á Íslandi haft jafn mikil áhrif á heimssöguna og Helgustaðanáma

Langur vegur virðist milli færustu vísindamanna mannkynssögunnar og fyrsta íslenska ráðherrans sem sagði af sér embætti. Leiðir þeirra liggja hins vegar saman í silfurbergsnámunni á Helgustöðum við utanverðan Reyðarfjörð. Sérfræðingur sem skoðað hefur sögu námunnar segir fáa staði á Íslandi jafn þýðingarmikla fyrir mannkynssöguna og hana.

Í byrjun nóvember kom út bókin „Silfurberg – Íslenski kristallinn sem breytti heiminum“ eftir feðgana Kristján Leósson og Leó Kristjánsson. Leó, sem lést í mars á þessu ári, varði síðustu 25 árum ævi sinnar í rannsóknir á afdrifum silfurbergsins að austan og náðu þeir feðgar að ljúka við texta bókarinnar áður en hann dó.

„Þótt aðrir hafi fjallað um afmarkaða þætti úr sögu bergsins þá held ég að enginn hafi áður gert sér almennilega grein fyrir hversu gríðarleg áhrif það hafði á alla vísindasöguna,“ segir Kristján í viðtali sem birtist í Austurglugganum nýverið.

„Silfurberg inniheldur ekkert silfur og er ekki berg,“ útskýrir hann. Silfurbergið eru kristallar úr kalsíum-karbónati sem myndast yfir milljónir ára. Uppleystar steindir bárust fyrir milljónum ára með vatni frá Reyðarfjarðareldstöðinni að holrými í bergi þangað sem síðar reis bærinn Helgustaðir í utanverðum firðinum. Þar fékk vatnið að liggja kyrrt í lengri tíma við kjöraðstæður þannig að kristallarnir mynduðust.

Í hendur þekktustu vísindamanna sögunnar

Það var á á 17. öld sem sýnishorn af silfurbergi frá Helgustöðum komst í hendur danska vísindamannsins Rasmus Bartolin sem virðist hafa dreift því út um víða veröld, meðal annars Isaac Newton. Louis Pasteur, sá sem þróaði pensillín, var einn þeirra sem gerði tilraunir með silfurberg og það tengist afstæðiskenningu Alberts Einstein.

„Þetta var hreinasta og fullkomnasta efni sem hægt var að finna nokkurs staðar í heiminum. Hvergi höfðu fundist kristallar sem höfðu jafn fullkomna kristalbyggingu og hér. Samkvæmt heimildum gátu þeir orðið margir metrar að lengd. Nánast um leið og þeir komast í hendurnar á vísindamönnum í Kaupmannahöfn verður til ný fræðigrein sem kallast kristallafræði,“ segir Kristján.

Silfurbergið frá Helgustöðum hafði mikil áhrif á rannsóknir á eiginleikum ljóss, meðal annars ljósbroti og skautun sem er grunnurinn að tækninni sem nýtt er í símaskjáum og ljósleiðurum nútímans.

Felldi ráðherra

Silfurbergið frá Helgustöðum kom líka við sögu þegar íslenskur ráðherra sagði í fyrsta sinn af sér. Það gerði Björn Jónsson árið 1911. Vissulega voru það ekki silfurbergsmolarnir fylltu mælinn en Björn hafði meðal annars unnið sér til saka að geta ekki útskýrt hvers vegna landssjóður fékk lítið út úr sölu námaréttinda á Helgustöðum til erlends banka.

Um aldamótin 1900 voru það feðgarnir Carl og Thor Tulinius sem unnu silfurberg úr námunni samkvæmt samningi við ríkið. Ekki stóð annað í honum en að söluarði skyldi skipt jafnt milli þeirra og íslenska ríkisins.

Carl Tulinius lést 1905 en samningur þeirra feðga við ríkið rann út 1910. Var þá tekin ákvörðun um að bjóða út silfurbergsvinnsluna. Í ljós kom að sonur ráðherra, Sveinn sem síðar varð fyrsti forseti Íslands, hafði gert leynisamninga um ágóða af mögulegri silfurbergsvinnslu við þann aðila sem ríkið veitti námuréttindin.

Þetta mál og fleiri urðu til þess að rannsóknarnefndir voru skipaðar af Alþingi og lauk málum þegar Björn sagði af sér áður en greidd voru atkvæði um vantraust á hann. „Það var jafnvel talið að landssjóður hafi misst af tekjum sem jöfnuðust á við heildarskatttekjur árin á undan,“ segir Kristján.

Ekki er að fullu ljóst hvað varð um birgðir sem Tulinius-feðgar áttu af silfurbergið, sem búið var að ná úr jörðu og flytja til Kaupmannahafnar, né mögulegan gróða að því. Kristján segir annarra að rannsaka það nánar.

Einstakt að svo mikilvægt efni hafi aðeins fundist á einum stað

Á næstu árum eftir þetta hverfur silfurbergið frá Helgustöðum af stóra sviðinu. Í fyrsta lagi var náman nærri tæmd, í öðru lagi fannst gott silfurberg annars staðar í heiminum og í þriðja lagi komu fram ný efni í stað þess.

En eftir stendur að Helgustaðanáman er einstök í huga Kristjáns. „Hún er einn merkasti, ef ekki merkilegasti staður Íslands í heimssögunni. Það er klárt að fyrir vísindasöguna var enginn staður hérlendis mikilvægari.

Það er einstakt að efni, sem hafði svona mikið tæknilegt vægi, hafi bara fundist á einum stað í heiminum yfir 250 ára tímabil. Sambærilega mikilvæg efni voru til dæmis kvarts og demantar, en þau mátti finna víða.

Á tímabilinu frá því um 1670-1920 er ekkert annað efni en silfurberg frá Helgustöðum sem er nógu gott til að gera þessar rannsóknir. Sögulega séð er náman mikils virði. Fólk heimsækir hana enn en ég held að það séu mjög margir Íslendingar sem gera sér ekki grein fyrir hversu ofboðslega mikilvæg hún er.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.