„Færri hafa komist að en vilja”

„Það hefur lengi verið á planinu að vera með námskeið fyrir austan auk þess sem við höfum fengið fjölmargar fyrirspurnir um að koma þangað síðastliðin ár og ákváðum loksins að láta verða af því,” segir Erla Björndóttir hjá MUNUM, en hún og meðeigandi hennar, Þóra Hrund Guðbrandsdóttir, verða með fyrirlestur og námskeið í markmiðasetningu og persónulegum vexti á Reyðarfirði í janúar.Sjálf er Erla frá Norðfirði og Þóra Hrund hefur aldrei komið í fjórðunginn. „Þess vegna finnst okkur þetta sérstaklega spennandi og segja má að þetta verði kynningarferð um fallega Austurlandið í leiðinni,” segir Erla.Fyrirlestrar og námskeið

Fyrirlesturinn og námskeiðið verða þriðjudaginn 22. janúar og hugsanlegt er að viðburðir verði á fleiri stöðum, en það verður þá auglýst nánar á Facebook-síðu MUNUM.

„Við höfum síðastliðin ár boðið uppá ókeypis fyrirlestur í byrjun árs í Reykjavík þar sem færri hafa komist að en vilja, en það hefur verið mjög skemmtilegt start á árinu hjá okkur. Á honum fjöllum við almennt um þau skref sem hafa ber í huga í markmiðasetningu og hvernig við getum hámarkað líkur á árangri. Einnig seljum við dagbókina okkar MUNUM á sérstökum kjörum á þessum viðburðum, en hún er hönnuð með það að leiðarljósi að auðvelda markmiðasetningu og tímastjórnun, hvetja til framkvæmda og efla jákvæða hugsun,” segir Erla.

„Einnig höfum við verið með vinnustofur fyrir sérstaka hópa og fyrirtæki síðastliðin ár og ákváðum í fyrsta skipti í fyrra að bjóða upp á slíkt fyrir almenning og það tókst frábærlega vel. Við fengum fólk á öllum aldri, af báðum kynjum og úr öllum áttum – til dæmis kom fimm manna fjölskylda á eitt námskeiðið sem var æðislegt.

Þar er unnið að persónulegum vexti og farið mun dýpra yfir þau atriði sem liggja að baki farsællar markmiðasetningar og tímastjórnununar. Ýmis verkefni eru unnin, bæði í markmiðasetningu og verkefni í anda jákvæðrar sálfræði með það að markmiði að efla jákvæða hugsun. Hver og einn fær MUNUM dagbók sem verkfæri í þessari vinnu fyrir árið, en þeir sem eiga bók koma með sína eigin og greiða lægra gjald.

Á námskeiðinu kortleggjum við drauma, markmið og væntingar og út frá því er unnið að persónulegu plani fyrir árið 2019. Er það gert með það að leiðarljósi að hámarka árangur, auka afköst og líkur á því að þú náir árangri og sért skrefinu nær að láta drauma þína verða að veruleika.”

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar