Ertu laumupenni sem vilt koma þér á framfæri?

„Þetta er einstök hugmynd að því leytinu að við vitum ekki hverjir munu skrifa verkið eða hvernig það verður. Höfundar og laumupennar sem eru búsettir annarstaðar en á höfuðborgarsvæðinu geta sent inn örsögur, aðstæðulýsingar og stutta leikþætti sem tengjast einangrun,“ segir Árni Kristjánsson leikstjóri og annar stjórnandi leikhópsins Lakehouse, sem nú óskar eftir textabrotum frá skáldaglöðum einstaklingum.


Harpa Fönn Sigurjónsdóttir tónlistarkona er hinn stjórnandi leikhópsins sem leitar nú eftir höfundum fyrir nýstárlegt samstarfsverkefni sem gengur undir vinnutitlinum Einangrun. „Það verður svo Héraðsbúinn og leikskáldið Sigríður Lára Sigurjónsdóttir sem mun taka við textabrotunum og í samstarfi við okkur Hörpu fléttar saman leikverk með þemanu einangrun.“ segir Árni Kristjánson.


Hæfileikafólk býr ekki bara á höfuðborgarsvæðinu
Harpa Fönn segir hugmyndina hafa sprottið upp vegna þess hve þau Árni séu bæði hrifin af verkum sem tengja saman margar sögur og oft með óvæntum hætti. „En líka vegna þess að sjálf er ég frá Húsavík þar sem ég held árlega listahátíðina Skjálfanda. Það skiptir mig miklu máli að koma list af landsbyggðinni meira á framfæri. Það er hafsjór af hæfileikaríkum listamönnum utan höfuðborgarsvæðisins sem sýna hæfileika sína í heimahéraði en gætu auðveldlega snert við fólki um allt landið ef þau fengju fleiri tækifæri til þess,“ segir Harpa Fönn.

„Hnyttin, sár, einlæg eða kómísk“
Árni segir að þó svo einangrun sé útgangspunktur fyrir höfunda geti verkin verið af öllum toga. „Hnyttin, sár, einlæg eða kómísk. Það ræðst svo ekki fyrr en í sumar hvaða höfundar verða valdir.

Eins og við sjáum þetta fyrir okkur þá hefst samstarf okkar við höfundana með því sem þeir senda inn. Ef við svo veljum verk þeirra viljum við bjóða þeim að taka þátt í að þróa bútana sína og verkið í heild.“

Árni segir að enn sé óráðið hvort verkið fái styrk frá leiklistarráði og í hvaða mynd það muni birtast. „Ef þetta verk fer á svið yrði þetta þriðja atvinnuleiksýning Lakehouse sem hefur áður sýnt „Í samhengi við stjörnurnar“ eftir Nick Payne í Tjarnarbíó, Frystiklefanum í Rifi og Sláturhúsinu á Egilsstöðum og sýnir nýtt íslenskt verk Rejúníon eftir Sóleyju Ómarsdóttur í Tjarnarbíó í haust.“

Höfundar mega vera á öllum aldri. Textana skal senda gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. fyrir 1. júlí næstkomandi. 

Forsíðuljósmynd: Julie Rowland

Ertu laumupenni

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.