Er þrjóskari en andskotinn

„Ég hef gríðarlegar væntingar, þetta verður helgin sem allt getur gerst,“ segir Pjetur St. Arason, meðlimur í pönksveitinni DDT skordýraeitur stendur fyrir pönkhátíðinni „Orientu im culus – austur í rassgati“ sem haldin verður í Egilsbúð í Neskaupstað á morgun, laugardag. Pjetur er í yfirheyrslu vikunnar.


Pönkhátíðin Orientu im culus haldin í Neskaupstað þann 17. nóvember. Þar koma fram fjórar austfirskar hljómsveitir; DDT skordýraeitur, Vinny Vamos band, Sárasótt og Austurvígstöðvarnar. Auk þeirra verður hljómsveitin Fræbbblarnir með afmælistónleika á hátíðinni, en heil 40 ár eru síðan sú hljómsveit var stofnuð.

„Nú er tími til að fagna. Það er langur tími á milli verslunarmannahelgar og jóla, en markmiðið er að koma upp viðburði sem fyllir upp í þetta gat og vinnur sér fastan sess í hugum fólks. Ætlunin er að gera þessa hátíð að árlegum viðburði héðan í frá og er markmið aðstandenda hennar að stækka hana ár frá ári þannig að hún og að hún verði jafnvel tveggja kvölda hátíð.

Mikil gróska hefur verið í rokkinu á Austurlandi, meðal annars með tilkomu þungarokkshátíðarinnar Eistnaflugs sem haldin hefur verið í Neskaupstað í rúman áratug. Síðastliðið sumar spiluðu hljómsveitirnar DDT skordýraeitur og Austurvígstöðvarnar báðar á þeirri hátíð í sumar.Tónlist þessar sveita er aðgengileg almenningi á Spotify, og eru hljóðritin líka til í safni útvarpsins,“ segir Pjetur.

Fullt nafn: Pjetur St. Arason.

Starf: Framhaldsskólakennari.

Maki: Fráskilinn.

Börn: Ég á þrjú börn. Peta Margaret, Magnea Elínóra, Hjálmar Jón.

Vínill eða geisladiskur? Geisladiskur.

Mesta undur veraldar? Að við skulum vera hér ennþá.

Hver er þinn helsti kostur? Þrjóskari en andsk...

Hver er þinn helsti ókostur? Þrjóskari en andsk...

Hvað er best við pönkið? Frelsið sem það hefur og útrásin sem það gefur.

Hvaða bíómynd hefurðu séð oftast? Tvær myndir sem eru á pari, það eru Rokk í Reykjavík og Life of Pi.

Besta bók sem þú hefur lesið? Meistarinn og Margarita, engin spurning.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Stoppað tímann í smá stund svo ég fái frið til að gera allt sem ég þarf að gera núna.

Hvað er rómantík? Sólaruppkoman í Páskahelli, þar sem bárurnar klettana kyssa, fossinn hjalar og fuglarnir leika við hvurn sinn fingur.

Hvað er best við Austurland? Kyrrðin og friðurinn og hér á ég heima.

Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Ryksuga. Þoli ekki suðið.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Cole Porter.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Umburðarlyndi.

Draumastaður í heiminum? Drangaskarð á fögrum sumardegi.

Syngur þú í sturtu? Nei, en alls staðar annars staðar.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Móðir mín heitin.

Duldir hæfileikar? Það vita það mjög fáir, en ég get breytt vatni í vín.

Mesta afrek? Börnin mín.

Hvað var í tísku þegar þú varst yngri en er það ekki lengur? Sítt hár, skræpóttar skyrtur, ást og friður.

Af hverju ætti fólk að mæta á tónleikana um helgina? Margar ástæður, sjá Fræbbblana í fyrsta sinn á Austurlandi og Austurvígstöðvarnar sem fengu mikið lof hjá ritstjóra Rolling Stone-tónlistartímaritsins. Svo verður þetta geggjuð gleði og gríðarlegt gaman sem engin má missa af.Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar